Erlent

Norður-Kórea skaut „fjölmörgum flugskeytum“ í hafið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þessari Hwasong-14 var skotið upp frá Norður-Kóreu í júlí í tilraunaskyni. Flaugin er talin geta dregið rúma 10.000 kílómetra.
Þessari Hwasong-14 var skotið upp frá Norður-Kóreu í júlí í tilraunaskyni. Flaugin er talin geta dregið rúma 10.000 kílómetra. vísir/afp
Yfirvöld í Suður-Kóreu segja að Norður-Kórea hafi skotið „fjölmörgum flugskeytum“ í hafið undan austurströnd Kóreuskaga. Fréttastofa AP greinir frá.

Flugskeytunum var skotið á loft frá Gangwon-héraði. Suður-kóresk hermálayfirvöld segja að flugskeytin hafi flogið í norðausturátt í um það bil 250 kílómetra áður en þau lentu í sjónum. Talið er að um skammdræg flugskeyti hafi verið að ræða.

Norður-Kórea hefur á undanförnum vikum lagt aukna áherslu á skotflaugaæfingar og vinnur herinn að því að fullkomna langdrægt flugskeyti sem hægt væri að skjóta á skotmörk í Bandaríkjunum.

Mikil spenna hljóp í samskiptin á Kóreu-skaga þegar langdrægu flugskeyti var skotið á loft af norður-kóreska hernum. Hafa yfirvöld í Norður-Kóreu hótað að skjóta flugskeytum á Guam í Kyrrahafi þar sem Bandaríkin býr yfir herstöðvum.

Umfangsmikil heræfing suður-kóreska hersins og þess bandaríska stendur nú yfir á Kóreu-skaga og má reikna með að flugskeytaæfing Norður-Kóreu sé svar við æfingunni.

Sérfræðingar á vegum Suður-Kóreuhers og Bandaríkjahers vinna nú að því að bera kennsl á flugskeytin sem skotið var á loft.


Tengdar fréttir

Trump áfram hofmóðugur gagnvart Norður-Kóreu

Hótanir sem ganga á milli Norður-Kóreu og Donalds Trump Bandaríkjaforseta stigmagnast. Nú tístir forsetinn að hernaðarlausnir séu tilbúnar ef Norður-Kóreumenn hegða sér ekki skynsamlega.

Norður-Kóreumenn tilbúnir í eldflaugaárás á Gvam von bráðar

Her Norður-Kóreu er sagður leggja lokahönd á áætlun um að skjóta eldflaugum að Gvam. Ríkisfjölmiðlar einræðisríkisins segja Donald Trump Bandaríkjaforseta of „skyni skroppinn“ til að hægt sé að eiga viðræður við hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×