Lífið

Svona lýsti Melania ástarlífi þeirra Donalds

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Samband forsetahjónanna hefur mikið verið milli tannanna á fólki.
Samband forsetahjónanna hefur mikið verið milli tannanna á fólki. Vísir/getty

Samband Melaniu Trump og eiginmanns hennar, bandaríkjaforsetans Donalds, hefur lengi verið ein af uppáhalds ráðgátum netverja. Myndskeið af henni þar sem hún sést gretta sig eftir að eiginmaður hennar lítur undan og þegar hún neitar að taka í hönd hans eru fyrir löngu búin að öðlast sjálfstætt líf eftir að hafa dreifst sem eldur í sinu um netheima.

Eftir að Donald Trump tók við embætti forseta hafa gömul viðtöl við þau hjónakornin skotið upp kollinum - og mörg þeirra draga upp aðra mynd af þessari fyrrum fyrirsætu en heimsbyggðin hefur nú vanist.

Þeirra á meðal er eitt gífurlega óþægilegt viðtal sem útvarpsdónakallinn Howard Stearn tók við Donald Trump þegar hann bauð sig fram til forseta Bandaríkjanna árið 1999. Það má heyra hér að neðan.

Útvarpsmaðurinn biður Trump um að fá að tala við Melaniu, þá kærasta auðkýfingsins, sem Donald segir vera í næsta herbergi að hlusta á viðtalið.

Þegar Melania tekur upp tólið brýst karlremban út í Stearn og byrjar hann nánast að klæmast við hana í beinni útsendingu.

„Í hverju ertu?“
Stearn byrjar á því að slá Melaniu óteljandi gullhamra áður en hann spyr hana hvort hún geti farið í kynþokkafyllstu fötin sín. Því næst spyr hún hverju hún sé í núna.

„Ekki miklu,“ svarar Melania við mikla dónakallahrifningu útvarpsmannsins sem er ekki lengi að spyrja hvort hún sé nakin.

„Næstum,“ svarar hún þá. Howard Stearn stynur. „Ohh, ég er nú þegar kominn úr buxunum,“ segir Stearn og getur vart hamið sig. Hann spyr því næst hvernig kynlífi þeirra Donalds sé háttað og hvort þau sofi saman á hverju kvöldi í íbúð hans í New York.

Hún gengst við því og segir að þau skemmti sér „mjög, mjög vel.“

Viðtalið má heyra hér að neðan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira