Handbolti

Ramúne Pekarskyté samdi við Stjörnuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ramúne skrifar undir samning við Stjörnuna á Mathúsi Garðabæjar.
Ramúne skrifar undir samning við Stjörnuna á Mathúsi Garðabæjar. Vísir/Andri Marinó
Íslensk-litháíska stórskyttan Ramúne Pekarskyté hefur gengið til liðs við bikarmeistara Stjörnunnar í kvennahandboltanum.

Ramúne Pekarskyté mun skrifa undir eins árs samning en Stjarnan kynnir nýja leikmann félagsins á blaðamannafundi klukkan 16.30.

Þetta er mikill liðstyrkur fyrir Stjörnuliðið sem nálgast með þessu Íslandsmeistara Fram sem hafa þegar fengið til síns landsliðskonurnar Karen Knútsdóttur og Þóreyju Rósu Stefánsdóttur.

Ramúne og Haukarnir féllu út út undanúrslitum úrslitakeppni Olís-deildar kvenna í vor á móti verðandi Íslandsmeisturum Fram. Ramúne skoraði 23 mörk í leikjunum þremur sem Framliðið vann alla naumlega.

Stjörnukonur hafa endaði í öðru sæti á Íslandsmótinu undanfarin fimm ár en nú er að sjá hvort þessi frábæra skytta geti hjálpað Garðabæjarliðinu að ná loksins í gullið.

Ramúne, sem heldur upp á 37 ára afmælið sitt í október, hefur spilað níu tímabil með Haukum hér á landi, fyrst frá 2003 til 2010 og svo undanfarin tvö tímabil.

Ramúne skoraði 96 mörk í 15 deildarleikjum með Haukum í Olís-deild kvenna á síðustu leiktíð eða 6,4 mörk að meðaltali í leik.

Ramúne spilaði erlendis á árunum 2010 til 2015 en hún var þá þrjú tímabil í Norergi (Levanger), eitt í Danmörku (SönderjyskE ) og eitt í Frakklandi (Havre Athletic Club). Ramúne spilaði með Eastcon AG Vilnius í heimalandi sínu áður en hún kom 23 ára gömul til Íslands haustið 2003.

Ramúne lék með litháíska landsliðinu frá 1996 til 2009 en fékk íslenskan ríkisborgararétt í júní 2012. Ramúne hefur skorað 103 mörk í 38 landsleikjum fyrir Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×