Erlent

Vilja ferðamennina burt

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Spánverjar eru búnir að fá sig fullsadda á ferðamönnum.
Spánverjar eru búnir að fá sig fullsadda á ferðamönnum. Vísir/afp

Vaxandi óánægja er á meðal íbúa á Spáni með ört stækkandi ferðamannaiðnað. Íbúar Spánar, á mest sóttu áfangastöðunum eins og Barcelona, Mallorca og San Sebastián, hafa gripið til sinna ráða og gengið fylktu liði í mótmælagöngu gegn túrisma. Þetta kemur fram á vef Guardian.

Aðsóknarmet var slegið á Spáni á síðasta ári en Spánverjar tóku á móti 75,6 milljón gestum. Íbúarnir segja að iðnaðurinn og ágangur ferðamanna valdi náttúrunni skaða og þá hafi aukinn gestagangur slæm áhrif á húsnæðismarkað. Ferðamannaiðnaðurinn, í þeirri mynd sem hann er í dag, sé þess valdandi að íbúar hrekist úr hverfum sínum.


Íbúarnir vilja eyjuna sína aftur. Mótmæli á Mallorca, Spáni. Vísir/afp

Fjölmenn mótmæli voru haldin í Feneyjum í síðasta mánuði. Í yfir tvö þúsund manna mótmælagöngu brýndu íbúar Feneyja raustina og beindu spjótum sínum að háu leiguverði og mengandi skemmtiferðaskipum. Mótmælendur linna ekki látum fyrr en stjórnvöld aðhafast og koma til móts við kröfur íbúanna.

Taleb Rifai, framkvæmdastjóri Alþjóðaferðamálastofnunar (UNWTO), heldur uppi vörnum fyrir iðnaðinn og segir vandamálin spretta af rótum aðgerðarleysis stjórnvalda. Það þurfi einfaldlega að standa rétt að málum og móta skýra stefnu í ört vaxandi iðnaði.

„Til þess að ferðaþjónustan skili sér í ánægjulegri reynslu, bæði fyrir gesti og íbúa, þarf öfluga stefnumótun, að henni sé framfylgt og stjórnvöld þurfa að koma að málum, bæði á vettvangi ríkis- og sveitarstjórna,“ segir Rifai.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira