Watford bjargaði stigi gegn Liverpool í uppbótartíma | Sjáðu mörkin

Kristinn Páll Teitsson skrifar

Mohamed Salah fiskaði vítaspyrnu og skoraði mark í fyrsta leik sínum fyrir Liverpool í 3-3 jafntefli gegn Watford á Vicarage Road í hádegisleik dagsins í enska boltanum.

Miðvörðurinn Miguel Britos jafnaði metin fyrir Watford í uppbótartíma fyrir heimamenn en leikurinn minnti Jurgen Klopp eflaust óþarflega mikið á síðasta tímabil þar sem Liverpool varðist afar illa í föstum leikatriðum.

Heimamenn í Watford komust í tvígang yfir í fyrri hálfleik, framherjinn Stefano Okaka skallaði í netið af stuttu færi á 8. mínútu en Sadio Mane náði að jafna metin á 29. mínútu.

Sú staða entist ekki lengi en Abdoulaye Doucoure kom Watford aftur yfir á 32. mínútu og leiddu heimamenn í hálfleik.

Salah sem var búinn að vera ógnandi í fyrri hálfleik krækti í vítaspyrnu á upphafsmínútum seinni hálfleiks þegar Gomes felldi hann í vítateignum.

Á vítapunktinn steig Roberto Firminho og kom hann Liverpool yfir en aðeins tveimur mínútum lagði hann upp sigurmarkið fyrir Salah.

Reyndi hann að lyfta boltanum yfir Gomes og var Salah mættur til að skila boltanum yfir línuna af stuttu færi. Fékk Liverpool fjöldan allra færa til að klára leikinn án árangurs og það átti eftir að kosta gestina.

Britos tókst að jafna metin á 92. mínútu en spurning var um rangstöðu í markinu þar sem hann stóð við Simon Mignolet í marki Liverpool og skilaði boltanum yfir línuna af stuttu færi.

Reyndist það síðasta mark leiksins í ótrúlegum leik en Liverpool-menn fara því særðir í leikinn gegn Hoffenheim á þriðjudaginn eftir jöfnunarmark í uppbótartíma.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.