Erlent

Ungir skátar meðal látinna eftir óveður í Póllandi

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Búist er við að óveðrið haldi áfram í dag.
Búist er við að óveðrið haldi áfram í dag. Vísir/AFP
Fimm létust og rúmlega þrjátíu slösuðust í óveðrinu sem geisaði í Póllandi í gær. Meðal látinna eru tvær stelpur á aldrinum 13 og 14 ára sem voru í skátaferðalagi. Féllu tré á tjald þeirra.

Tuttugu aðrir skátar slösuðust og voru færðir á spítala. Skátarnir höfðu tjaldað í Tuchola-skóginum í Norðurhluta Póllands. Sagði Adam Kralisz, skátaforinginn á staðnum, að aðstæður hefðu verið hræðilegar. „Við þurftum að ganga nokkra kílómetra í gegnum skóginn með tré hrynjandi alls staðar í kringum okkur,“ sagði hann.

Grzegorz Nowik, Skátahöfðingi Póllands, hefur lýst yfir mánaðarlöngu sorgartímabili hjá skátum í landinu.

Rúmlega 170.000 einstaklingar voru án rafmagns í gær og 800 byggingar skemmdust í Norður- og Vestur-Póllandi.

Búist er við að óveðrið haldi áfram í dag og hafa yfirvöld gefið út viðvaranir á nokkrum svæðum í landinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×