Körfubolti

Martin stigahæstur í sigri á Ungverjalandi

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Martin átti flottan leik.
Martin átti flottan leik. Vísir/andri marinó

Martin Hermannsson var stigahæstur með 14 stig og gældi við tvöfalda tvennu í 60-56 sigri á Ungverjalandi í æfingarleik sem fór fram í Kazan í Rússlandi í dag.

Líkt og í leiknum gegn Þýskalandi í gær byrjaði íslenska liðið vel, sérstaklega varnarlega og leiddi með sex stigum að fyrsta leikhluta loknum 13-7.

Ungverjarnir fundu glufur á varnarleik Íslands í öðrum leikhluta sem þeir unnu með tíu stigum og leiddi Ungverjaland 31-27 í hálfleik.

Það snerist alveg við í þeim þriðja þar sem Ísland var mun sterkari aðilinn og vann með níu stigum 23-12 og leiddi Ísland með sjö stigum fyrir lokaleikhlutann 50-43.

Þar náðu Ungverjar aðeins að kroppa í forskotið en ekki að snúa leiknum sér í hag og lauk leiknum með fjögurra stiga sigri íslenska liðsins.

Martin var stigahæstur í íslenska liðinu með 14 stig og átta fráköst en Kristófer Acox og Hlynur Bæringsson voru með þrettán stig hvor.

Ísland mætir svo heimamönnum í Rússlandi í fyrramálið en mótið sem íslenska liðið tekur þátt í er hluti af undirbúningi liðsins fyrir Eurobasket sem hefst í Finnlandi í lok mánaðar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira