Sport

Tvö gull og eitt silfur til Íslands á heimsmeistaramóti íslenska hestsins

Telma Tómasson skrifar
Ungmennin í íslenska landsliðinu í hestaíþróttum gerðu góðan dag á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Oirschot í Hollandi í dag, tóku tvö gull og eitt silfur.

,,Það liggur mikil vinna að baki þessu,  en þetta var sætur sigur og bara æðislegt," sagði Gústaf Ásgeir Hinriksson sem í dag hlaut efsta sætið á hestinum Pistli frá Liltu-Brekku og varð heimsmeistari í fjórgangi í ungmennaflokki á HM íslenska hestsins, en landslið 19 þjóða taka þátt að þessu sinni.

Keppni í hestaíþróttum reynir ekki einasta á ganghæfni hestanna heldur einnig á mikla færni í reiðmennsku, en á meginlandinu og á Norðurlöndunum eru feiknasterkir knapar sem Gústaf Ásgeir atti kappi við. Úrslitin voru nokkuð dramatísk þar sem tveir keppendur duttu úr keppni.

Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út þegar úrslitin voru kunngerð, en frábær stemning er á pöllunum enda mörg hundruð Íslendingar á svæðinu til að fylgjast með heimsmeistaramótinu og hvetja landsliðið áfram.

Konráð Valur Sveinsson hafði fyrr um daginn landað silfri í 250 metra skeiði og nú síðdegis bætti Máni Hilmarsson en einni rósinni í hnappagat íslenska landsliðsins og hlaut efsta sætið í fimmgangi ungmenna. Frábær árangur okkar fólks í dag.

A-úrslit fara fram á morgun,  sunnudag, og er sent beint út frá mótinu á oz.com.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×