Enski boltinn

Clement segir félögin nálægt samkomulagi um kaupverðið á Gylfa

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Clement fylgist með leik sinna manna í dag en hann hefur fengið nóg af máli Gylfa.
Clement fylgist með leik sinna manna í dag en hann hefur fengið nóg af máli Gylfa. Vísir/getty

Paul Clement, knattspyrnustjóri Swansea, var spurður um framtíð Gylfa Þórs Sigurðssonar,  eftir 0-0 jafntefli gegn Southampton í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar en mikið hefur verið rætt um framtíð Gylfa undanfarna mánuði.

Everton og Leicester hafa bæði lagt fram tilboð í íslenska landsliðsmanninn en Everton hefur haldið áfram að bjóða í von um að Gylfi klæðist treyju Everton á þessu tímabili.

Gylfi tók ekki þátt í æfingarferð Swansea til Bandaríkjanna á dögunum og þá var hann ekki í leikmannahóp Swansea í dag á meðan fundin er lausn á hans málum en Swansea vill fá 50. milljónir punda fyrir íslenska landsliðsmanninn.

Aðspurður eftir jafnteflið í dag sagðist Clement vonast til að málið færi að leysast og að hann ætti von á því að félögin myndu ná samkomulagi.

„Eina sem er mikilvægt á þessari stundu er staðan hjá Gylfa. Ef það fer í gegn munum við skoða aðra leikmenn en það er ekkert öruggt þar til það er komið í gegn,“ sagði Clement og bætti við:

„Félögin eru ekki sammála um virði hans en ég á von á því að samkomulagið sé ekki langt undan og það verði gengið frá þessu á næstu dögum.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira