Enski boltinn

Mourinho kokhraustur: Ætlum að berjast um alla titla sem í boði eru

Mourinho ásamt Guardiola á góðri stundu.
Mourinho ásamt Guardiola á góðri stundu. vísir/getty

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, segir sína menn vera í stakk búna til að gera atlögu að öllum þeim titlum sem í boði eru fyrir Manchester United á komandi tímabili.

Náði Manchester United aðeins sjötta sæti í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili en sigur í Evrópudeildinni þýðir að þeir fengu þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á þessu tímabili.

Eftir að hafa bætt við sig þremur sterkum leikmönnum telur Mourinho að sínir menn séu tilbúnir að berjast um titlana heima fyrir sem og í Evrópu.

„Ég hélt að ég þyrfti þrjú sumur til að móta liðið en ég er kominn með mjög góðan leikmannahóp og félagið er í mun betra ástandi í dag eftir aðeins tvö sumur. Skipulagið er mun betra á öllum sviðum,“ sagði Mourinho og bætti við:

„Við erum með betra lið og við stefnum hátt áþ essu tímabili. Við munum reyna að vinna enska meistaratitilinn, berjast við bestu lið Evrópu um titilinn í Meistaradeild Evrópu og svo er ég alltaf veikur fyrir ensku bikarkeppnunum.“

Mourinho á von á mikilli samkeppni heimafyrir.

„Manchester City er með frábært lið, frábæran þjálfara, félagið eyddi peningunum vel og er komið með sterkan leikmannahóp til að berjast um titilinn. Sömuleiðis Tottenham þótt þeir hafi ekki eytt peningunum. Svo eru lið eins og Arsenal, Liverpool og Chelsea öll ógnarsterk. Ég held að samkeppnin verði meiri en nokkru sinni fyrr.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira