Fótbolti

Ronaldo skoraði og var rekinn út af í sigri á Barcelona

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ronaldo skoraði og sá rautt.
Ronaldo skoraði og sá rautt. vísir/getty
Cristiano Ronaldo kom mikið við sögu þegar Real Madrid vann 1-3 sigur á Barcelona á Nývangi í fyrri leik liðanna um spænska Ofurbikarinn í kvöld.

Ronaldo kom inn á sem varamaður á 58. mínútu, átta mínútum eftir að Real Madrid hafði komist yfir með sjálfsmarki Gerards Pique.

Lionel Messi jafnaði metin úr vítaspyrnu á 77. mínútu en aðeins þremur mínútum síðar kom Ronaldo Real Madrid aftur yfir með frábæru marki.

Ronaldo fékk gula spjaldið fyrir að rífa sig úr treyjunni eftir að hann skoraði. Og skömmu eftir markið fékk hann sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir leikaraskap.

Þrátt fyrir liðsmuninn bætti Real Madrid við marki áður en yfir lauk. Það gerði varamaðurinn Marco Asensio á 90. mínútu. Lokatölur 1-3, Real Madrid í vil.

Seinni leikur liðanna fer fram á Santiago Bernabéu á miðvikudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×