Innlent

Hátt í 400 manns urðu vitni að svifvængjaslysinu

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir og Gissur Sigurðsson skrifa
Maðurinn var í hópi svifvængjaflugmanna.
Maðurinn var í hópi svifvængjaflugmanna. Mynd/Haraldur Guðjónsson
Talið er að hátt í 400 manns hafi orðið vitni að slysi sem átti sér stað við Reynisfjöru í gær þegar maður féll til jarðar er hann flaug á svifvæng yfir svæðið. Maðurinn lést í kjölfarið. Verið er að taka skýrslu af vitnum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu brást maðurinn ekki rétt við aðstæðum og enn síður miðað við reynslu. Verður meðal annars kannað hvort hann hafi hugsanlega fengið aðsvif eða hjartaáfall á meðan hann var á flugi, en hann var kominn vel yfir miðjan aldur.

Maðurinn var vanur sviflugi og hefur af og til komið hingað til lands og þekkti vel aðstæður til svifvængjaflugs hér. Maðurinn var í hópi svifvængjaflugmanna.

Lögreglan á Suðurlandi rannsakar málið og sendiráð landsins, sem maðurinn er frá, er að hafa uppi á ættingjum, þannig að nafn mannsins verður ekki gert opinbert að svo stöddu. Verið er að rannsaka hvort að bilun í búnaði hafi ollið slysinu eða hvort að eitthvað hafi komið fyrir manninn í fluginu.

Lögreglan á Suðurlandi sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að ekki væri ljóst hvort maðurinn hefði verið á vegum ferðaþjónustufyrirtækis hér á landi.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa kemur ekki að rannsókninni þar sem vængurinn var ekki vélknúinn

Uppfært 14:47

Maðurinn var ekki á vegum ferðaþjónustufyrirtækis þegar slysið átti sér stað. Um er að ræða sjálfstæða ákvörðun hans að ferðast með svifvæng.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×