Fótbolti

Ronaldo dæmdur í fimm leikja bann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ronaldo ýtir við De Burgo Bengoetxa.
Ronaldo ýtir við De Burgo Bengoetxa. vísir/getty
Cristiano Ronaldo hefur verið dæmdur í fimm leikja bann fyrir að ýta við dómara í 1-3 sigri Real Madrid á Barcelona í spænska Ofurbikarnum í gær.

Ronaldo byrjaði leikinn á bekknum en kom inn á sem varamaður á 58. mínútu.

Þegar 10 mínútur voru til leiksloka kom hann Real Madrid yfir með fallegu marki. Ronaldo reif úr treyjunni og fékk fyrir það gula spjaldið hjá De Burgo Bengoetxa, dómara leiksins.

Á 82. mínútu féll Ronaldo í vítateig Barcelona eftir baráttu við Samuel Umtiti. Bengoetxa gaf Portúgalanum gula spjaldið fyrir leikaraskap og því var þátttöku hans í leiknum lokið.

Ronaldo var ekki par sáttur við þessa niðurstöðu og ýtti í bakið á Bengoetxa.

Ronaldo fékk eins leiks bann fyrir rauða spjaldið og svo fjóra leiki í viðbót fyrir að ýta við Bengoetxa.

Ronaldo missir af seinni leik Real Madrid og Barcelona á miðvikudaginn og fjórum fyrstu leikjum Madrídarliðsins í spænsku úrvalsdeildinni. Þeir eru gegn Deportivo La Coruna (úti), Valencia (heima), Levante (heima) og Real Sociedad (úti).

Ronaldo sýndi heimsbyggðinni magavöðvana og fékk fyrir það gult spjald.vísir/getty
Ronaldo féll í vítateig Barcelona eftir viðskipti við Samuel Umtiti ...vísir/getty
... og fékk annað gula spjaldið sitt og þar með rautt fyrir leikaraskap.vísir/getty

Tengdar fréttir

Zidane framlengir hjá Real Madrid

Zinedine Zidane skrifaði í gær undir nýjan þriggja ára samning hjá spænska stórveldinu Real Madrid en hann hefur stýrt liðinu undanfarna 18 mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×