Innlent

Móðir Oddrúnar framdi sjálfsvíg á geðdeild: „Ellefu ár eru liðin en ekkert hefur breyst“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Oddrún segir fréttir síðustu daga vekja upp slæmar minningar
Oddrún segir fréttir síðustu daga vekja upp slæmar minningar
Oddrún Lára Friðgeirsdóttir sendi landlæknisembættinu póst og bað um svör eftir að móðir hennar framdi sjálfsvíg á geðdeild Landsspítalans. Hún fékk aldrei svörin sem hún óskaði eftir. 

Í opinni færslu á Facebook segir Oddrún að fréttir um ungan mann sem svipti sig lífi á sjálfsvígsvakt inni á geðdeild Landsspítalans hafi vakið upp slæmar minningar. Ellefu ár séu liðin en ekkert hafi breyst.

„12. maí 2006 fór mamma upp á geðdeild. Hún óttaðist um eigið líf í eigin höndum og fór á eina staðinn sem býður upp á aðstoð fyrir andlega veika. Þar var hún lögð inn og sett á sjálfsvígsvakt. Sjálfsvígsvakt virkar þannig að athuga á með manneskjuna á 15 mínútna fresti. Um miðnætti sólarhring eftir að hún mætti var síðasta innlitið til hennar. Tveimur tímum síðar fannst hún látin, 14. maí.“

Liðu tvær klukkustundir

Oddrún furðar sig á því að það hafi liðið tvær klukkustundir án þess að einhver hafi litið inn til hennar. „Af hverju beltið hennar var ekki tekið af henni veit ég ekki. Eina sem ég veit er að þetta átti ekki að gerast þarna.“

Í einlægum pistli á Pressunni skrifaði Oddrún um daginn sem hún vaknaði við orðin „Mamma þín dó í nótt.“ Hún lýsir móður sinni sem fallegri, góðri, fyndinni og umhyggjusamri.

„Hún var einstæð móðir með mig og stóru systur mínar tvær. Hún kenndi mér svo margt og elskaði mig mikið. Á hverju einasta kvöldi kyssti ég hana og sagðist elska hana og hún mig.“

Geðdeild Landspítalans.

Með jaðarpersónuleikaröskun, þunglyndi og kvíða

Móðir Oddrúnar þjáðist af jaðarpersónuleikaröskun, auk þunglyndis og kvíða. „Á síðustu árunum var hún inn og útaf geðdeild og í iðjuþjálfun. Nokkrum sinnum hafði hún reynt sjálfsvíg. Aðfararnótt mæðradagsins 2006 náði sjúkdómurinn loksins yfirhöndinni og hún endaði sitt líf,“ skrifaði Oddrún í pistli sínum á Pressunni.

„Ég hef oft verið spurð hvort ég sé reið útí mömmu. Reið af því að hún ákvað að fara frá okkur. Og heyri oft að sjálfsvíg sé sjálfselska. Alltaf verð ég jafnhissa að heyra þetta. Þessa nótt tók hún ekki þá sjálfselsku, meðvituðu ákvörðun um að yfirgefa börnin sín. Hennar veikindi, vanlíðan, hennar sjúkdómur varð þess valdandi að hún dó. Hennar mein sást ekki utan á henni og því á sumt fólk enn erfitt með að skilja hvernig það getur dregið manneskju til dauða.“

Undirmönnuð og plásslítil

Færsla Oddrúnar á Facebook hefur fengið mikil viðbrögð og hundruð deilinga síðan í gær

„Foreldrar okkar, börnin okkar, systkini okkar, frænkur og frændur, vinir og nágrannar deyja, mörg á ári, vegna þess að geðdeildin er undirmönnuð og plásslítil. Verkferlar ekki nógu góðir og svo ef eitthvað gerist inni á stofnunum er það oft þaggað niður. Algert úrræðaleysi ríkir hjá fólki því þeim er vísað frá. Sumum sagt að koma aftur seinna. En stundum er ekkert seinna. Manni ber skylda að stoppa hjá slysi og aðstoða. Manneskju sem er að blæða út er ekki vísað frá inni á bráðamóttöku“ skrifar Oddrún á Facebook.

Oddrún spyr hvort við séum ekki að bregðast fólki sem þarf aðstoð. „Þurfum við ekki að vera brjáluð og krefjast úrbóta og úrræða? Áður en næsta manneskja deyr. Erum við ekki bara búin að fá nóg? Ég er það allavega.“


Tengdar fréttir

Landspítali mun rannsaka sjálfsvíg

Af hálfu Landspítalans mun fara fram ítarleg skoðun á atvikum málsins þegar ungur maður svipti sig lífi á geðdeild Landspítala aðfaranótt 11. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×