Fótbolti

Carlos Tevez lofar því að koma til baka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez.
Carlos Tevez. Vísir/Getty
Argentínski knattspyrnumaðurinn Carlos Tevez hefur fengið leyfi til að snúa aftur heim til Argentínu frá félagi sínu í Kína en hann þurfti að skrifa undir loforð um að snúa aftur til baka.

Tevez þarf að koma aftur til kínverska félagsins Shanghai Shenhua fyrir 30. ágúst næstkomandi.

Kínverska félagið féllst á þetta eftir viðræður við Carlos Tevez en loforð hans varð að vera skriflegt.  BBC segir frá.

Hann fær að fara heim til að ná sér góðum að kálfameiðslum sem plaga hann. Tevez sóttist eftir að fá sérstaka meðferð í heimalandinu.

Erlendir fjölmiðlar hafa skrifað um það að Carlos Tevez vilji losna frá Shanghai Shenhua en hann kom til félagsins frá Boca Juniors í desember síðastliðnum.

Tevez hefur áður stungið af en á 2010-11 tímabilinu þá flúði hann til Argentínu í þrjá mánuði eftir ósætti við Roberto Mancini, knattspyrnustjóra Manchester City.

Tevez tapaði næstum því tíu milljónum punda á þeirri uppákomu þar sem hann þurfti að borga sekt auk þess að missa af launum og bónusgreiðslum.

Tevez skrifaði undir tveggja ára samning við Shanghai Shenhua og varð um leið einn af launhæstu leikmönnum heims.

Enska blaðið The Sun heldur því fram að Tevez fái meira en 634 þúsund pund í vikulaun frá Shanghai Shenhua eða 89 milljónir íslenskra króna.

Tevez hefur skorað 2 mörk í 11 leikjum fyrir Shanghai Shenhua sem eru örugglega ekki tölur sem eru í takti við slík ofurlaun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×