Viðskipti innlent

Samruni býr til risa á bætiefna- og hjúkrunarmarkaði

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Bætiefni fyrir liði verða undanskilin í yfirtökunni.
Bætiefni fyrir liði verða undanskilin í yfirtökunni. vísir/pjetur
Samkeppniseftirlitið heimilaði í gær yfirtöku Artasan ehf. á IceCare ehf. að vissum skilyrðum uppfylltum. Með samrunanum verður til eitt stærsta fyrirtæki landsins hvað varðar sölu á lyfjum, heilsuvörum, hjúkrunarvörum og lækningatækjum.

Artasan annast innflutning, skráningu og markaðssetningu á samheitalyfjum, lausasölulyfjum og heilsuvörum. Vörur fyrirtækisins eru seldar til apóteka, sjúkrahúsa, hjúkrunarheimila, dagvöruverslana og bensínstöðva. IceCare hefur hingað til annast innflutning og heildsölu á vítamínum og öðrum heilsuvörum.

Tilkynnt var um samrunann þann 23. mars síðastliðinn og hefur málið verið til meðferðar hjá eftirlitinu síðan þá. Í júní tilkynnti það samrunaaðilum að hugsanlega þyrfti að grípa til íhlutunar vegna samrunans þar sem sameinað fyrirtæki yrði of stórt á tilteknum mörkuðum.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að sameinað fyrirtæki muni koma til með að verða stærsta fyrirtækið á vítamína- og bætiefnamarkaði hérlendis með ríflega fjórðungshlutdeild. Sömu sögu er að segja af markaði fyrir bætiefni fyrir meltingu og liði auk tann­hreinsi­vara en þar yrði hlutdeildin um og yfir helmingur af markaðnum.

Það var niðurstaða eftirlitsins að sameinað fyrirtæki Artasan og Ice­Care myndi ná markaðsráðandi stöðu hvað bætiefni fyrir liði varðar. Í því skyni að sporna við samþjöppun á markaði skuldbundu fyrirtækin sig til þess að undanskilja þann lið frá kaupunum. IceCare mun því þurfa að ráðstafa réttindum til sölu ákveðinna bætiefna til annars aðila en Artasan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×