Lífið

„Heiðarlegi“ þjófurinn fékk samviskubit og sendi vegabréfið heim til Katrínar í pósti

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Þjófurinn fékk augljóslega samviskubit yfir því að hafa rænt vegabréfinu.
Þjófurinn fékk augljóslega samviskubit yfir því að hafa rænt vegabréfinu. Katrín Halldóra
Katrín Halldóra Sigurðardóttir leikkona hefur tvisvar í sumar orðið fyrir þjófnaði við heimili sitt, síðast á sunnudagskvöld. Hún rak svo upp stór augu í morgun þegar vegabréf Hallgríms Jóns Hallgrímssonar sambýlismanns hennar kom inn um lúguna á heimili þeirra. Vegabréfið var sent nafnlaust í hvítu umslagi.

Katrín sem hefur slegið í gegn í hlutverki sínu í Ellý síðustu mánuði, deildi þessu skrítna atviki á Instagram og birti mynd af sendingunni. „Nú er heiðarlegi þjófurinn hinsvegar að skila passanum hans Hallgríms til baka í nafnlausri póstsendingu sem barst inn um lúguna í morgun ... #samviskubitið farið.“

Í samtali við Vísi segir Katrín að hún sé ekki bjartsýn á að fá fleira til baka af því sem var stolið. Meðal þess sem var stolið úr bíl og við hús Katrínar er úlpa, heyrnatól og tvær töskur fullar af dóti. Hún hefur ekki kært þjófnaðinn til lögreglu. Bendir hún fólki í hverfinu 104 í Reykjavík að vera vakandi: „Það er eitthvað þjófagengi eða eitthvað þar, svo munið að læsa.“

Katrín segir að þessi sending frá þjófnum hafi samt ekki gert mikið gagn:

„Þetta var of seint því að hann var búinn að fá bráðabirgðapassa, hann fékk hann í morgunn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×