Erlent

50 þúsund heiðruðu minningu „Kóngsins"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Aðdáendur Elvis Presley, hvaðanæva að úr heiminum, komu saman við heimili söngvarans í Memphis í gærkvöldi, en fjörutíu ár eru í dag liðin frá dauða hans.

Um fimmtíu þúsund manns komu saman til að heiðra konung rokksins, eins og hann hefur oft verið kallaður, og voru margir mættir löngu áður en formleg dagskrá hófst.

Elvis fæddist í Mississippi í Bandaríkjunum árið 1935. Tónlistarferill hans hófst þegar hann var 19 ára en árið 1956 sló hann í gegn með laginu Heartbreak Hotel. Meðal annarra þekktra laga hans eru Love Me Tender, Hound dog og Jailhouse Rock. Elvis var meðal áhrifamestu tónlistarmanna allra tíma en hann lék líka í kvikmyndum.

22 ára gamall keypti Elvis villuna Graceland og þar bjó hann til dauðadags. Húsið er í dag notað sem safn um kónginn og hafa um tuttugu milljónir manna heimsótt það.

Elvis varð bráðkvaddur 42 ára gamall þann 16. ágúst árið 1977. Banameinið var hjartaáfall en Elvis hafði glímt við heilsufarsvandamál tengd lyfjaneyslu og þyngdaraukningu.

Í meðfylgjandi sjónvarpsfrétt er litið á gamalt myndefni í tilefni af dánarafmæli Elvis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×