Enski boltinn

Morata þorði ekki í samkeppni við Harry Kane

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alvaro Morata og Harry Kane með gullskóinn.
Alvaro Morata og Harry Kane með gullskóinn. Vísir/Samsett/Getty
Tottenham hefur ekki eytt einni krónu í nýja leikmenn í sumar það er um 30 milljörðum minna en Manchester City, liðið sem endaði einu sæti neðar í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

Einn af leikmönnunum sem Tottenham hafði áhuga á var spænski landliðsframherjinn Alvaro Morata sem Real Madrid seldi síðan til Englandsmeistara Chelsea.

„Það er svo erfitt að sannfæra góða leikmenn um að koma og svo enda þeir með að sitja á bekknum. Þá byrja vandamálin,“ sagði Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, í samtali við blaðamann Daily Mail.

„Morata sagði við mig: Af hverju viltu fá mig ef þú hefur Harry Kane?. Ef maður reynir að kaupa framherja þá segja þeir allir: Stjóri, hvað á ég að gera. Á ég að sitja á bekknum. Af því að þeirra er Harry Kane. Ég get ekki keppt við Harry Kane, Hugo Lloris eða einhverja aðra leikmenn,“ sagði Pochettino ennfremur í viðtalinu.  

Peningar í nýja leikmenn í sumar hjá bestu liðunum:

Manchester City: 215,3 milljónir punda (29,8 milljarðar)

Manchester United: 147 milljónir punda (20,3 milljarðar)

Chelsea: 136,2 milljónir punda (18,8 milljarðar)

Arsenal: 53 milljónir punda (7,3 milljarðar)

Liverpool: 50 milljónir punda  (6,9 milljarðar)

Tottenham: 0

Stjórnarformaðurinn Daniel Levy hefur fengið á sig mikla gagnrýni í enskum fjölmiðlum fyrir að sitja á peningum félagsins í sumar.

„Stuðningsmenn okkar vita að í dag erum við ekki félag sem getur keppt við Manchester United og City um leikmenn. Við getum ekki barist við þau,“ sagði Pochettino en hann fullvissir sömu stuðningsmenn um að Tottenham vilji kaupa leikmenn.

„Ímyndin sem fólk hefur af Daniel er röng. Daniel vill ólmur kaupa nýja leikmenn alveg eins og ég. Það er hinsvegar ekki auðvelt að finna rétta leikmanninn fyrir liðið. Það er mjög erfitt,“ sagði Pochettino.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×