Körfubolti

Heilt lið af frönskum NBA-stjörnum mun missa af EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tony Parker er hættur í franska landsliðinu og hann er ekki eina franska NBA-stjarnan sem missir af EM:
Tony Parker er hættur í franska landsliðinu og hann er ekki eina franska NBA-stjarnan sem missir af EM: Vísir/EPA
Franska körfuboltalandsliðið er eins og það íslenska að undirbúa sig fyrir Evrópumótið í körfubolta en Frakkar eru með okkur Íslendingum í riðli í Helsinki.

Flestir af þekktustu leikmönnum Frakka verða ekki með á Eurobasket í ár sem ættu að vera ágætar fréttir fyrir íslenska liðið enda Frakkar illviðráðanlegir með fullskipað lið.

Síðasta NBA-stjarna Frakka til að detta út var Timothe Luwawu-Cabarrot sem leikur með liði Philadelphia 76ers.  Luwawu-Cabarrot er meiddur á hné og getur ekki gefið kost á sér.

Luwawu-Cabarrot er 22 ára og 198 sentímetra skotbakvörður eða lítill framherji en hann var valinn í nýliðavali NBA sumarið 2016. Luwawu-Cabarrot var með 6,4 stig og 2,2 fráköst að meðaltali á 17,2 mínútum í leik í NBA-deildinni 2016-17.

Hann bætist nú í hóp fleiri franskra stjarna sem eru forfallaðir á EM. Leikstjórnandinn Tony Parker, framherjinn Mickael Gelabale og kraftframherjinn Florent Pietrus hafa allir lagt landsliðsskóna á hilluna.

Auk þeirra eru bakvörðurinn Nicolas Batum hjá Charlotte Hornets, miðherjinn Rudy Gobert hjá Utah Jazz og miðherjinn Ian Mahinmi hjá Washington Wizards allir að glíma við meiðsli og geta því ekki verið með liðinu í Finnlandi.

Parker, Batum og Gobert væru allir pottþéttir byrjunarliðsmenn væru þeir með en þeir Gelabale, Pietrus og Mahinmi hefðu örugglega fengið allir stórt hlutverk líka.

NBA-leikmenn franska Eurobasket hópsins sem eftir standa eru Joffrey Lauvergne hjá Chicago Bulls, Evan Fournier hjá Orlando Magic, Boris Diaw hjá Utah Jazz, Yakuba Ouattara hjá Brooklyn Nets og Kevin Séraphin hjá Indiana Pacers. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×