Körfubolti

Jordan setur Kobe ofar en LeBron: Fimm toppar þrjá

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kobe Bryant og LeBron James áttust margoft við á körfuboltavellinum.
Kobe Bryant og LeBron James áttust margoft við á körfuboltavellinum. vísir/getty
Michael Jordan telur að Kobe Bryant eigi heima ofar á listanum yfir bestu leikmenn allra tíma en LeBron James. Að mati Jordans liggur munurinn á Kobe og LeBron í fjölda titla sem þeir hafa unnið.

„Nei, fimm toppar þrjá,“ svaraði Jordan þegar hann var spurður að því í körfuboltabúðum sem hélt í Santa Barbara í Kaliforníu hvort honum fyndist LeBron vera betri en Kobe. Jordan vísaði þarna til meistaratitla sem Kobe og LeBron hafa unnið.

Jordan varð sex sinnum NBA-meistari með Chicago Bulls á sínum tíma.vísir/getty
Kobe varð fimm sinnum NBA-meistari með Los Angeles Lakers á löngum og farsælum ferli sem lauk í fyrra. Hann varð meistari þrisvar sinnum í röð á árunum 2000-02 og bætti svo tveimur titlum við 2009 og 2010. Kobe fór alls sjö sinnum í úrslit með Lakers en tapaði aðeins tvisvar sinnum.

LeBron hefur hins vegar unnið þrjá titla á sínum ferli. Hann varð meistari með Miami Heat 2012 og 2013 og með Cleveland Cavaliers 2016.

LeBron hefur komist í úrslit NBA-deildarinnar sjö ár í röð og átta sinnum alls. Lið hans hafa hins vegar tapað fimm af þessum átta úrslitarimmum.

„Hann gæti verið betri en það en Kobe vann fimm meistaratitla en LeBron þrjá,“ sagði Jordan sem varð sjálfur sex sinnum meistari með Chicago Bulls. Fyrst þrisvar í röð á árunum 1991-93 og tók svo aðra titlaþrennu 1996-98.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×