Enski boltinn

Noble: Tapið gegn Íslandi plagar Joe hvern dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Noble og Bilic á blaðamannafundinum í dag.
Noble og Bilic á blaðamannafundinum í dag. Vísir/Andri Marinó
Mark Noble, fyrirliði West Ham, sló á létta strengi þegar hann ræddi við fréttamenn á Laugardalsvelli síðdegis, fyrir leik liðsins gegn Manchester City klukkan 14.00 á morgun. Slaven Bilic, stjóri liðsins, var með honum á blaðamannafundinum og hlakkar til að mæta Íslandi.

„Við fáum að spila við eitt stærsta félags heims en við erum líka með gott lið. Við mætum Manchester United í fyrstu umferð deildarinnar og það er leikurinn sem við erum að hugsa um og þurfum að vera tilbúnir fyrir,“ sagði Bilic.

„Við erum mjög spenntir. Við vitum að það verður frábært andrúmsloft á leiknum og vonandi finnum við fyrir því á morgun.“

Talið barst fljótlega að sigri Íslands á Englandi á 16-liða úrslitum EM í fyrra en Noble var spurður út í leikinn. „Ég var að velta því fyrir mér hvað ég myndi vera lengi á Íslandi áður en ég fengi þessa spurningu,“ sagði hann í léttum dúr. „Ég væri helst til að hafa Joe Hart með mér hérna uppi, ég veit að þetta plagar hann á hverjum degi.“

„En þið áttuð það skilið, af hverju ekki? Gylfi er maðurinn sem allt snýst um enda frábær leikmaður. Ísland er nú orðin toppþjóð í knattspyrnunni og þess vegna erum við hér í dag.“

Slaven Bilic, stjóri West Ham.Vísir/Andri Marinó
Bilic fylgist einnig vel með íslenska landsliðinu enda fyrrum landsliðsþjálfari Króatíu. Hann horfði til dæmis á leik Íslands og Króatíu í vor, sem Ísland vann 1-0.

„Við vorum óheppnir. Þetta var dæmigerður 0-0 leikur en við spiluðum ekki nógu vel til að vinna og Ísland var afar skipulagt. Liðið beitir góðum skyndisóknum og er hættulegt í föstum leikatriði. Markið kom eftir eitt slíkt.“

„En ég er nokkuð viss um að Króatía fari til Rússlands. Ísland á möguleika og það er allt opið. En nú er komin pressa á leikmannina sem var ekki áður. Það gæti haft eitthvað að segja.“

Leikur West Ham og Manchester City á Laugardalsvelli hefst klukkan 14.00 á morgun og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×