Umfjöllun: Man City - West Ham 3-0 | Öruggur sigur City í Ofurleiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Manchester City fagna marki í Laugardalnum í dag.
Leikmenn Manchester City fagna marki í Laugardalnum í dag. Vísir/Andri Marinó
Manchester City vann 3-0 sigur á West Ham þegar liðin mættust í svokölluðum Ofurleik á Laugardalsvelli í dag. Gabriel Jesus, Sergio Agüero og Raheem Sterling skoruðu mörk City í leiknum sem var sóttur af rúmlega 6000 áhorfendum.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, byrjaði með allar sínar helstu stjörnur inn á. Slaven Bilic, stjóri West Ham, tefldi einnig fram sterku liði þótt sterkir leikmenn á borð við Winston Ried, Manuel Lanzini, Andy Carroll og Cheikhou Kouyaté væru fjarri góðu gamni.

City-menn voru miklu sterkari aðilinn í leiknum í dag og litu á köflum frábærlega út. Þeir héldu boltanum vel, áttu marga laglega samleikskafla og voru síógnandi.

West Ham var aðallega í eltingaleik og eyddi löngum stundum án boltans. Hamrarnir komust sjaldan inn á vallarhelming City og fyrir utan skalla frá Tony Martínez um miðjan fyrri hálfleik og skot frá Edimilson Fernandes snemma í þeim seinni ógnuðu þeir sama og ekki neitt. Fremstu menn komust ekki í takt við leikinn og miðjumennirnir áttu erfitt uppdráttar.

Gabriel Jesus kom City yfir strax á 8. mínútu eftir slæm mistök í vörn West Ham og sendingu Kevins De Bruyne. Þrátt fyrir ágætis færi hjá City urðu mörkin í fyrri hálfleik ekki fleiri.

City var með sömu yfirburði í seinni hálfleiknum og á 56. mínútu skoraði Agüero annað mark Manchester-liðsins eftir frábæra sendingu frá David Silva sem var líklega besti maður vallarins í dag.

Stjórarnir gerðu fjölmargar skiptingar í seinni hálfleik og Guardiola skipti m.a. öllum útileikmönnunum sínum af velli.

Einn af varamönnum City, Sterling, skoraði þriðja og síðasta mark liðsins með skoti af stuttu færi á 71. mínútu. Fimm mínútum síðar fékk hann dauðafæri en Joe Hart varði frá sínum gamla félaga úr City. Hart átti fínan leik í marki West Ham og varði nokkrum sinnum vel.

Fleiri urðu mörkin ekki og öruggur 3-0 sigur City staðreynd.

Þetta var síðasti leikur liðanna fyrir átökin í ensku úrvalsdeildinni. City sækir nýliða Brighton heim í 1. umferðinni á laugardaginn 12. ágúst. Daginn eftir mætir West Ham Manchester United á Old Trafford.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira