Lífið

Jón Jónsson tók ábreiðu af Eurovision slagara bróður síns á heybagga

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Meðal tónlistarfólks sem kom fram í gær var Sóley, Vök, Joey Christ og Sturla Atlas.
Meðal tónlistarfólks sem kom fram í gær var Sóley, Vök, Joey Christ og Sturla Atlas. Eldur Ástþórsson
Mikil stemning var á byrjunarkvöldi Innipúkans í gærkvöldi og heppnaðist kvöldið einstaklega vel samkvæmt upplýsingum frá skipuleggjendum hátíðarinnar sem stendur yfir alla helgina.

Meðal tónlistarfólks sem kom fram í gær var Sóley, Vök, Joey Christ og Sturla Atlas.

Einnig spilaði tónlistarmaðurinn og hægri bakvörðurinn Jón Jónsson á hátíðinni í gær en eftir að hann lauk tónleikunum sínum á Gauknum hélt hann út á útisvæði hátíðarinnar.

„Það er búið er að loka götunni og mynda smá svona útihátíðarstemningu þarna fyrir utan. Við settum saman nokkra heybagga og bjuggum til svið fyrir hann. Eftir giggið hoppaði hann upp á heybaggana og tók þar nokkur lög,“ sagði Steinþór Helgi Arnsteinsson, einn af skipuleggjendum hátíðarinnar, í samtali við Vísi.

Vakti það mikla lukku þegar hann tók lagið „Í síðasta skipti“ sem bróðir hans gerði frægt í Söngvakeppni sjónvarpsins.

Ósjaldan hefur myndast stemning á útisvæðinu eftir að tónleikunum lýkur inni. Til að mynda flutti GKR lagið sitt Morgunmatur í fyrra við mikinn fögnuð hátíðargesta.

Búist er við góðri mætingu í kvöld. „Sigga beinteins er að spila í kvöld og það er allt að verða vitlaust. Kannski að við reynum að fá hana til að hoppa upp á heybagga og taka lagið í kvöld,“ segir Steinþór Helgi að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×