Innlent

Panamaþátturinn með Sigmundi Davíð tilnefndur til Emmy-verðlauna

Kjartan Kjartansson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hrökklaðist frá völdum eftir að viðtalið við Uppdrag granskning birtist í apríl í fyrra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hrökklaðist frá völdum eftir að viðtalið við Uppdrag granskning birtist í apríl í fyrra. Vísir

Sænski fréttastkýringaþátturinn Uppdrag granskning sem afhjúpaði aflandsfélagseign Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, er tilnefndur til Emmy-verðlauna.

„Herra forsætisráðherra, hvað geturðu sagt mér um félag sem nefnist Wintris?“ spurði fréttamaðurinn Sven Bergman þáverandi forsætisráðherra í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í viðtalinu afdrifaríka.

Viðtalið birtist í Kastljósi á Ríkisútvarpinu sunnudagskvöldið 3. apríl í fyrra. Tveimur dögum seinna sagði Sigmundur Davíð af sér. Ríkisstjórnin sat áfram en alþingiskosningum var flýtt vegna sviptinganna í kringum Panamaskjölin. Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra, og Ólöf heitin Nordal, þáverandi innanríkisráðherra, voru einnig nefnd í skjölunum.

Sýnt um allan heim
Í frétt sænska ríkissjónvarpsins SVT sem framleiðir Upppdrag granskning kemur fram að þátturinn sé tilnefndur til alþjóðlegra Emmy-verðlauna í flokki dægurmála.

Á vefsíðu alþjóðlegu Emmy-verðlaunanna kemur fram að Panamaskjölin hafi markað tímamót í alþjóðlegri baráttu gegn skattsvikum og peningaþvætti. Viðtal Oppdrag granskning við Sigmund Davíð um aflandseigur hans hafi verið birt um allan heim.

Jóhannes Kr. Kristjánsson, rannsóknablaðamaður Reykjavík Media, vann að þættinum með Oppdrag granskning.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira