Körfubolti

Haukur Helgi: Það fær enginn annar að dekka gríska undrið

Elías Orri Njarðarson skrifar

Giannis Antetokounmpo, leikmaður Milwaukee Bucks í NBA-deildinni í Bandaríkjunum, mun mæta með liði Grikklands á Evrópumótið í körfubolta sem mun fara fram í Finnlandi og mun því mæta því íslenska þann 31. ágúst næst komandi.

Giannis var valinn fimmtándi í nýliðavali NBA-deildarinnar árið 2013 og hefur verið einn af burðarstólpum liðsins undanfarin ár. Grikkinn efnilegi er 211 cm á hæð og er gríðarlega erfiður viðureignar en hann mun fimari en aðrir menn af þessari stærð.

Antetokounmpo var með 22,9 stig, 8,7 fráköst, 5,4 stoðsendingar og 1,9 varin skot að meðaltali á síðasta tímabili.

Craig Pedersen, þjálfari Íslands, segir að það sé ekki búið að ræða það sérstaklega hvernig eigi að stöðva Giannis. Hann segir að það þurfi að huga bæði að vörn og sókn í leiknum gegn Grikkjum.

„Við höfum talað um hvað við gerum í sókninni þegar að hann er á svæðinu því hann er svo hávaxinn og mikill íþróttamaður. Hann hefur svo mikla og hraða yfirferð að það er ótrúlegt. Ég hef aldrei séð annað eins,“ sagði Craig um gríska undrið.

Haukur Helgi Pálsson fær það verðuga verkefni að dekka Giannis og kveðst hann vera klár í það verkefni. „Það fær enginn annar að dekka hann,“ sagði Haukur gletinn í viðtali við Kjartan Atla Kjartansson í kvöldfréttum Stöðvar tvö.

Hægt er að hlusta á viðtölin við Craig og Hauk Helga í heild sinni hér í spilaranum að ofan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira