Sport

Frumraun Hilmars Arnar á heimsmeistaramóti er á Ólympíuleikvanginum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hilmar Örn Jónsson.
Hilmar Örn Jónsson. Mynd/Virginia T&F/CC
Sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson úr FH keppir á sínu fyrsta Heimsmeistaramóti í kvöld þegar hann tekur þátt í undankeppni í sleggjukasti á HM í London.

Hilmar Örn keppir í fyrri kasthópnum og hefst keppnin klukkan 18:20 að íslenskum tíma á Ólympíuleikvanginum í London. Hilmar Örn er sá sjötti í kaströðinni.

Hilmar Örn er annar Íslendingurinn til að keppa á heimsmeistaramótinu í London en Ásdís Hjálmsdóttir varð í ellefta sæti í spjótkasti í gær.

Menn þurfa að kasta 75,50 metra eða lengra til þess að komast beint í úrslit en tólf keppendur munu keppa til úrslita í greininni. 32 keppendur eru skráðir til leiks, 16 í hvorum kasthópi. Allir hinir sleggjukastararnir hafa kastað lengra en Hilmar Örn á þessu ári.

Hilmar Örn hefur staðið sig mjög vel í keppnum sumarsins. Hann bætti eigið Íslandsmet í flokki 20 til 22 ára 8. júní síðastliðinn er hann kastaði 72,38 metra á Bandaríska háskólamótinu í Eugene, Oregon.

Hilmar hafnaði í sjöunda sæti á Evrópumeistaramóti 20 til 22 ára í júlí þar sem hann kastaði 69,96 metra og vantaði aðeins 65 sentímetra  upp á að komast í verðlaunasæti.

Hilmar Örn er annar Íslendingurinn sem keppir í sleggjukasti á HM í frjálsum en Bergur Ingi Pétursson komst ekki í úrslit á HM í Berlín 2009. Hann kastaði þá lengst 68,62 metra og endaði í 31. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×