Íslenski boltinn

Bjerregaard: Það eru allir svo almennilegir hérna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
André Bjerregaard hefur skorað tvö mörk í þremur leikjum fyrir KR.
André Bjerregaard hefur skorað tvö mörk í þremur leikjum fyrir KR. vísir/andri marinó
André Bjerregaard hefur komið eins og stormsveipur inn í Pepsi-deild karla. KR hefur unnið alla þrjá leikina sem þessi öflugi Dani hefur spilað og Vesturbæingar virðast vera komnir á beinu brautina eftir erfiða byrjun á tímabilinu.

„Ég er mjög ánægður með sigurinn. Við byrjuðum leikinn mjög vel og sköpuðum fullt af færum. En við féllum of mikið aftur í seinni hálfleik og hleyptum þeim inn í leikinn,“ sagði Bjerregaard sem skoraði eitt marka KR í 4-2 sigri á Víkingi Ó. í kvöld.

„Við sýndum hvað það er mikill kraftur og mikil gæði í liðinu. Við náðum að landa sigrinum. Þetta var heilt yfir góður leikur hjá okkur.“

KR-ingar voru miklu sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu 2-0 að honum loknum. Í þeim seinni komu Ólsarar til baka og jöfnuðu leikinn. En KR átti síðasta orðið og tryggði sér stigin þrjú.

„Við áttum skilið að vinna leikinn. Við fengum svo mörg færi og vorum með boltann nánast allan leikinn. Þeir komust inn í leikinn í seinni hálfleik en þetta var sanngjarn sigur,“ sagði Bjerregaard sem nýtur lífsins hjá KR.

„Mér líður vel. Það eru allir svo almennilegir og það er auðvelt að koma inn í þannig umhverfi. Ég er ánægður hérna og við erum að spila vel,“ sagði danski framherjinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×