Innlent

Slökktu í með Mývatni

Benedikt Bóas skrifar
Bráðabirgðaniðurstöður benda til að kviknað hafi í á pallinum.
Bráðabirgðaniðurstöður benda til að kviknað hafi í á pallinum. Mynd/Pétur Sveinbjörnsson
„Þetta er allt frekar súr­realískt og maður er frekar daufur,“ segir Olivia Rakelardóttir Zieba en andvaka hennar bjargaði trúlega mannslífum í stórbruna í Mývatnssveit í fyrrinótt.

Sjö manns voru í fastasvefni þegar eldurinn kviknaði í húsinu Austurhlíð. Fimm starfsmenn Hótels Reynihlíðar sváfu í kjallara hússins og par á efri hæðinni. Bráðabirgðaniðurstöður benda til að eldurinn hafi kviknað í aðstöðu við pall sem stendur við húsið þar sem starfsmenn reykja. Húsið er skráð sem íbúðarhúsnæði.

Þótt trúlega hafi kviknaði í vegna sígarettu var það önnur sígaretta sem bjargaði því sem bjargað varð því Olivia gat ekki sofnað og fékk símtal sem hún vildi ekki taka í öðru starfsmannahúsi rétt hjá. Hún vatt sér því út og rúllaði upp sígarettu.

„Það var svo mikill vindur þannig að ég var eitthvað að reyna að kveikja í en þegar ég sný mér við þá sé ég að húsið stendur í ljósum logum,“ segir Olivia sem hringdi strax í Neyðarlínuna og sagði að fólk væri í hættu.

„Það var enginn kominn út og einhvern veginn ekkert að gerast. Ég hringdi næst í yfirmann minn sem býr í húsinu og sem betur fer svaraði hann. Ég öskraði eitthvað á hann – man reyndar ekkert hvað ég sagði og skömmu síðar komu allir hlaupandi út.“

Rauði krossinn opnaði fjöldahjálparstöð fyrir starfsfólkið. Einnig var því útvegaður fatnaður og öllum var boðinn sálrænn stuðningur og var Olivia nýkomin af slíkum fundi er Fréttablaðið náði tali af henni.

Slökkviliðið í sveitinni barðist við eldinn þrátt fyrir vatnsleysi en vatn hafði verið tekið af Reykjahlíðarþorpi vegna viðgerðar. Þegar vatnið í tankinum á slökkviliðsbílnum þraut brugðu slökkviliðsmenn á það ráð að sækja vatn í Mývatn og luku slökkvistarfi þannig. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×