Erlent

Sonur Cecils skotinn til bana

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mikil reiði greip um sig þegar tannlæknirinn Walter Palmer skaut ljónið Cecil, sem sést hér á mynd, til bana árið 2015.
Mikil reiði greip um sig þegar tannlæknirinn Walter Palmer skaut ljónið Cecil, sem sést hér á mynd, til bana árið 2015. Vísir/AFP
Sonur ljónsins Cecils, sem tannlæknirinn Walter Palmer drap árið 2015, var skotinn til bana í Zimbabwe fyrr í mánuðinum. Guardian greinir frá.

Cecils-sonurinn Xanda var sex ára og hafði sjálfur feðrað töluverðan fjölda ljónsunga. Hann var skotinn til bana þann 7. júlí síðastliðinn rétt fyrir utan Hwange-þjóðgarðinn í Zimbabwe. Þjóðgarðurinn er í grennd við staðinn þar sem Palmer skaut föður Xanda, Cecil, til bana fyrir tveimur árum.

Xanda varð fyrir barðinu á veiðmönnum sem borgað höfðu háar fjárhæðir til að veiða ljón við þjóðgarðinn. Þeir sem urðu ljóninu að bana hafa ekki enn verið nafngreindir en veiðimaðurinn Richard Cooke skipulagði veiðina.

Xanda var skotinn í um tveggja kílómetra fjarlægð frá útjaðri þjóðgarðsins en vísindamenn á svæðinu kalla nú eftir því að veiðibanni verði komið á í fimm kílómetra radíusi umhverfis þjóðgarðinn.

Dauði Cecils vakti mikla athygli á sínum tíma. Mikil reiði greip um sig á heimsvísu vegna málsins og veiðimenn, sem borga fyrir veiði á ljónum og öðrum dýrum, harðlega gagnrýndir. Þá fékk banamaðurinn sjálfur, Walter Palmer, hryllilega útreið í fjölmiðlum vegna drápsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×