Erlent

Tugþúsundir mótmæltu í Póllandi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Fjölmargir komu saman í kvöld.
Fjölmargir komu saman í kvöld. vísir/epa
Tugþúsundir mótmæltu í Póllandi í dag eftir að neðri deild þingsins samþykkti frumvarp sem mun færa dómsmálaráðherra landsins völd til þess að skipa dómara við Hæstarétt landsins. Frumvarpið hefur meðal annars mætt andstöðu hjá Evrópusambandinu, og segja mótmælendur að ákvörðunin grafi undan lýðræðislegu réttarríki.

Kveiktu á kertum

Mótmælendur hafa komið saman síðustu daga og krafist þess að frumvarpið verði afturkallað. Það var svo samþykkt á þingi í dag og hópaðist fólk þá fyrir framan þinghúsið í Varsjá og krafðist þess að forseti landsins, Andrzej Duda, beiti neitunarvaldi gegn frumvarpinu.

Kveikt var á kertum í mótmælaskyni og mátti sjá mörg þúsund kerti á lofti og umhverfis þinghúsið í kvöld.

Mótmælendur mynduðu það sem þeir kölluðu Chain of light.vísir/epa
Láta ekki undan þrýstingi

Ríkisstjórn landsins hefur hins vegar lýst því yfir að hún muni ekki láta af áformum sínum. Líkt og staðan sé nú sé dómstólum stýrt af fólki úr efstu lögum samfélagsins, eða elítunni, og að því þurfi að breyta. Ríkisstofnanir og dómstólar eigi að þjóna öllum landsmönnum.

„Við munum ekki láta undan þrýstingi,“ sagði Beata Szydlo, forsætisráðherra Póllands, í sérstöku sjónvarpsávarpi í kvöld. Stjórnvöldum stafi engin ógn af elítunni.

 Frumvarpið er það nýjasta í röð aðgerða stjórnarinnar sem miðar að því að auka pólitísk afskipti af dómskerfinu. Stjórnarflokkurinn Lög og réttlæti hefur sætt mikilli gagnrýni vegna aðgerðanna, en segir þær nauðsynlegar til að auka skilvirkni innan dómskerfisins og draga úr spillingu.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB og fyrrverandi forsætisráðherra Póllands, hefur kallað frumvarpið skref aftur á bak og ganga gegn gildum Evrópusambandsins. Hann hefur farið fram á fund með Andrzej Duda, forseta landsins, til að ræða málið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×