Lífið

Allir geta ýtt undir sjálfbærari tísku

Sæunn Gísladóttir skrifar
Luisa Books, framkvæmdastjóri sjálfbærnimála hjá H&M á Íslandi og í Noregi.
Luisa Books, framkvæmdastjóri sjálfbærnimála hjá H&M á Íslandi og í Noregi. vísir/anton brink
„Vonandi byrja íslenskir neytendur að spyrja sig spurninga þegar þeir versla hjá okkur. Ég vona að þeim finnist að þeir geti haft áhrif. Sem einstaklingur getur manni oft fundist maður lítill í þessum stóra heimi, en allir eiga rödd og geta lagt sitt af mörkum. Ef allir myndu taka fyrstu skrefin í að kaupa vörur framleiddar á sjálfbæran hátt myndi það hafa mikil áhrif,“ segir Luisa Books, framkvæmdastjóri sjálfbærnimála hjá H&M á Íslandi og í Noregi.

Síðustu tvo áratugi hefur sænski verslunarrisinn H&M lagt sitt af mörkum til að þróa sjálfbærari vörur og framleiðsluumhverfi, nú hefur hann sett sér metnaðarfull markmið varðandi sjálfbær efni og vinnuskilyrði.

100% sjálfbært árið 2030



Fyrir árið 2030 hefur H&M sett sér það markmið að öll efni verði úr endurunnu eða sjálfbæru efni. „Núna er hlutfallið 26 prósent en það var til dæmis 11 prósent árið 2013.

Lykillinn að þessu er nýsköpun,“ segir Luisa. Það hefur gengið vel að skipta út hefðbundinni bómull fyrir sjálfbæra bómull. Árið 2012 var hlutfallið 13 prósent af allri bómull en var orðið 43 prósent árið 2016. Stefnt er að því að öll bómull verði sjálfbær fyrir árið 2020 hjá fyrirtækinu.

Luisa bendir á að þar sem nýsköpunar sé krafist til að tryggja sjálfbærni sé áhersla á hana í raun til þess fallin að skapa ný störf. „Það er áætlað að sjálfbærni muni skapa 100 þúsund ný störf í framtíðinni.“

Það hefur þó ekki allt verið dans á rósum í sjálfbærnimálum hjá fyrirtækinu og í gegnum árin hafa birst skýrslur þar sem H&M er gagnrýnt.

The Guardian greindi síðast frá því um miðjan júní að H&M væri meðal þeirra fyrirtækja sem tengd væru visk­ósuverksmiðjum í Kína, Indónesíu og Indlandi sem væru miklir mengunarvaldar og hefðu heilsuspillandi áhrif. Ný skýrsla Changing Markets Foundation sýndi fram á þetta en benti einnig á að fyrirtækin sem ættu í hlut væru að leita leiða til að framleiða á ábyrgari hátt.

„John Ruggie, sem var skipaður til að þróa leiðbeiningar Sameinuðu þjóðanna fyrir viðskipti og mannréttindi sem við störfum eftir, sagði að maður ætti ekki að dæmi fyrirtæki fyrir það sem gerist heldur hvað þau geri svo og hvaða leiða þau leita til að koma í veg fyrir að svona mál komi upp aftur. Það eru ótrúlega margar áskoranir í okkar starfi er varða bæði mengun og félagslega þætti. Við erum alltaf að vinna í þessu,“ segir Luisa.

„Ég held að þessi grein hafi í raun hampað okkur fyrir hvað við erum gagnsæ þegar kemur að þessum málum. Við viðurkennum að þetta sé vandamál og hvernig við munum taka á því. Við höfum virkilegar áhyggjur af málum sem þessum. Við erum að endurskoða hvaða efni við notum og hvernig. Það er í raun gott þegar svona skýrslur birtast. Við getum þá talað um hvaða skref við ætlum að taka fram á veginn,“ segir Luisa. Hún bætir við að fyrirtækið sé stöðugt að þróa betri efni til notkunar í framleiðslu.

Frá Afríku til H&M

Luisa er með meistaragráðu í þró­unar­fræði frá SOAS University of London og starfaði í fjölda ára á vettvangi í Austur-Afríku. „Ég hef starfað víða erlendis og meðal annars búið í Austur-Afríku. Ég hef alltaf viljað vinna við eitthvað þýðingarmikið sem hefur áhrif á líf margra. Ég vildi fyrst vinna á vettvangi þar sem ég vann meðal annars með fórnarlömbum kynferðisofbeldis, og með börnum og í heilbrigðismálum í Tansaníu. Það kenndi mér mjög mikið.“ Luisa starfaði meðal annars hjá Save the Children, Care Inter­national og UN Association.

„Mér finnst sjálfbærni svo áhugaverð af því að það er hægt að þróa alls konar sniðugar stefnur en svo þarf að hrinda þeim í framkvæmd á vettvangi. Ég er núna að vinna fyrir fyrirtæki sem hefur mannskap og metnað til að gera mikið og stefnan sem var kynnt í ár er mjög metnaðarfull. Við höfum stærðina til að gera mikið og það er gaman að sjá að fyrirtækið vill taka sjálfbærnistefnuna alla leið; ekki bara til að ýta okkur áfram á því sviði heldur einnig til að ýta við öllum iðnaðinum,“ segir Luisa.

Hún hefur starfað hjá H&M síðan árið 2014, fyrst sem sérfræðingur á sviði mannréttinda fyrir alþjóðaskrifstofu fyrirtækisins, svo hjá H&M Foundation sem er styrktarsjóður fyrirtækisins, í fyrra tók hún svo við núverandi stöðu sinni. Luisa segist spennt að starfa á Íslandi. „Hver einasti markaður hefur sín einkenni og að hafa áhrif á neytandann í átt að sjálfbærni er mismunandi í hverju landi.“

Sem fyrr segir hefur fyrirtækið náð miklum árangri á sviðinu síðastliðin árin. Í því samhengi má nefna að árið 2013 hóf fyrirtækið að taka á móti gömlum flíkum til endurvinnslu. Síðan þá hefur 39 þúsund tonnum af flíkum verið skilað, eða sem nemur 190 milljónum stuttermabola. „Efnið er notað í ýmislegt, meðal annars í bílaiðnaðinum, við einangrun veggja og í fyllingu í flugvélasæti. Einnig er gallaefni endurunnið til að framleiða nýjar flíkur úr því,“ segir Luisa.

Vilja hækka laun



H&M stefnir að því að tryggja að raunhækkun verði á launum starfsmanna verksmiðja fyrirtækisins í löndum á borð við Bangladess og Kambódíu. Sem stórfyrirtæki vill H&M vinna að hækkun meðallauna í þeim löndum og hafa forsvarsmenn þess starfað með Inter­national Labour­ Organisation (ILO) að því markmiði.

Meðal annars hefur H&M unnið að því að fræða starfsmenn verksmiðja og eigendur þeirra um réttindi sín og ábyrgð. Luisa segir að það geti verið snúið að hækka laun starfsmanna verksmiðjanna þannig að þeir geti lifað betra lífi þar sem oft spyrjist það út og þá verði keðjuáhrif, meðal annars sé leiga oft hækkuð hjá einstaklingunum, og þá verði ekki af raunhækkun launa. Þess vegna telur hún mikla þörf á að allir vinni saman að þessu markmiði, sér í lagi stjórnvöld og ríkisstjórnir í framleiðslulöndunum

Luisa Book hefur starfað hjá H&M frá árinu 2014 en vann áður á vettvangi í þróunarstarfi.vísir/anton brink

Á að krefjast meira af risum

„Við erum stórt fyrirtæki, við höfum tækifæri til að ákveða hver sé ábyrgð vörumerkja á borð við okkar í nútímanum. Okkar sýn er að leiða breytinguna í átt að tísku sem fer í hringi og er endurnýtanleg og á sama tíma vera sanngjarnt fyrirtæki sem leggur mikið upp úr jafnrétti,“ segir Luisa. „Áður lögðum við áherslu á að vera leiðandi í sjálfbærni, en núna viljum við frekar leiða breytinguna í iðnaðinum. Það á að krefjast meira af okkur í þessum málum heldur en minni fyrirtækjum.“

Á hverju ári eru framleidd ókjör af fatnaði sem mengar töluvert. Blanda af bómull og pólýester er í 85 prósentum af öllu fataefni sem framleitt er í heiminum. Það er áætlað að um 90 milljónir tonna af þeirri blöndu séu framleidd árlega í fatnað. H&M hefur reynt að draga úr því magni sem fyrirtækið notar af þessu efni. Meðal þess sem það hefur gert er að framleiða árlega Conscious Exclusive línuna.

„Þar er allt framleitt úr sjálfbærum efnum. Á hverju ári þróum við nýtt efni, í ár var það úr plastúrgangi og nefnist bionic. Það var í fyrsta sinn sem einhver framleiddi síðkjól úr því efni. Við erum oft spurð hvers vegna við framleiðum bara eina svona línu á ári. Tæknin og nýsköpunin er því miður ekki fyrir hendi til að framleiða meira. Hins vegar notum við þessa línu til að prufa efni sem við nýtum oft seinna fyrir hefðbundnar línur okkar og þá á stærri skala,“ segir Luisa.

Línan kom nýverið út og mun því ekki koma á Íslandsmarkað fyrr en næsta sumar þar sem fyrsta H&M-búðin á Íslandi verður opnuð í ágúst. Luisa segist spennt að sjá hvernig Íslendingar bregðist við þessari línu. „Við höfum lært það af reynslunni að það er ekki nóg að línan sé sjálfbær, hún þarf líka að vera flott og endurspegla tíðarandann.“

Spennt að sjá hegðun Íslendinga

Einnig hefur Luisa áhuga á að sjá hversu opnir Íslendingar séu almennt fyrir sjálfbærni. „Það mun vera mitt starf á Íslandi að sjá hvaða áhrif ég get haft á íslenska neytendur til að hugsa meira um þetta. Það verður gaman að meta áhugann hér á landi.“

Nú þegar hefur H&M tekist að uppfylla nokkur af sjálfbærnimarkmiðum sínum. Vörur eru til að mynda fluttar með skipum en ekki flugvélum til að draga úr kolefnislosun, einnig hefur fyrirtækið takmarkað ýmislegt við vinnslu fatnaðarins, til dæmis er sandblástur á gallaefnum bannaður.

Í hönnunarsamstarfi við tískumerkið Kenzo voru föt hönnuð þannig að þau gátu hvort sem er verið rétthverf eða ranghverf, en þá var líklegra að fólk myndi nýta þau betur að sögn Luisu.

Sólarorka næsta markmiðið

Hún segir að næsta markmið sé í framleiðsluferlinu. Þar verður komið upp sólhlöðum á þökum til að geta nýtt sólarorku við framleiðslu. Luisa er ánægð með afrakstur síðustu ára en ljóst er að nóg verk er fyrir höndum á sviði sjálfbærni hjá sænska tískurisanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×