Innlent

Farið að losna um pláss á Akureyri

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Svona var um að litast við Hamra við Kjarnaskóg í gærkvöldi.
Svona var um að litast við Hamra við Kjarnaskóg í gærkvöldi. vísir/ásgeir
Farið er að losna um pláss á tjaldsvæðunum á Akureyri, en lokað var fyrir frekari gestakomur í gærkvöldi, bæði við Þórunnarstræti og að Hömrum við Kjarnaskóg. Sama var uppi á teningnum á öðrum tjaldsvæðum á Norðurlandi í gær, en gera má ráð fyrir að fólks é að elta veðurspána.

„Það er þétt hjá okkur en um leið og fólk fer áf ætur og á stjá þá fara bílarnir af svæðinu og þá rýmkast aðeins til. Það er alltaf einhver hreyfing á fólki og blettir inn á milli sem eru að losna og eru lausir,“ segir Ásgeir Hreiðarsson, hjá Hömrum, útilífs- og umhverfismiðstöðvar skáta, sem reka tjaldsvæðin á Akureyri.

Ásgeir segist vart hafa séð viðlíka fjölda fólks á svæðinu í rúman áratug. „Ég held það hafi verið árið 2004 sem við lentum síðast í að þurfa að loka fyrir innkomu nýrra gesta tímabundið. Það var einu sinni á föstudagskvöldi sem það gerðist og svo leystist úr því á laugardegi.“

Besta veðrið um helgina verður á Norður- og Norðausturlandi, en þar er gert ráð fyrir allt að 24 stiga hita, að sögn Björns Sævars Einarssonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Veðrið verður þó verra annars staðar á landinu.

„Það verður besta veðrið á Norðaustur- og Austurlandi. Þar eru yfir 20 gráður og léttskýjað. En vestanlands eru skil upp að landinu og þungbúið og dálítil rigning á köflum. Á Snæfellsnesi gæti slegið í storm með snörpum vindhviðum, og það er varasamt fyrir fólk með húsvagna að vera þar á ferðinni í dag og fram eftir nóttu. Síðan verður heldur skárra á morgun.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×