Fótbolti

Freyr verður áfram með stelpurnar okkar eftir EM

Kolbeinn Tumi Daðason í Ermelo skrifar
Freyr ræðir við fyrirliðann Söru Björk Gunnarsdóttur og varafyrirliðann Guðbjörgu Gunnarsdóttur á æfingu liðsins í dag.
Freyr ræðir við fyrirliðann Söru Björk Gunnarsdóttur og varafyrirliðann Guðbjörgu Gunnarsdóttur á æfingu liðsins í dag. Vísir/Tom
Landsliðsþjálfarinn Freyr Alexandersson á ekki von á öðru en að stýra landsliði Íslands í undankeppni HM 2019. Þetta staðfesti hann í viðtali við fréttastofu á æfingu liðsins í Harderwijk í dag.

Freyr tók við liðinu árið 2013 fyrir undankeppni HM. Þar hafnaði liðið í öðru sæti riðilsins, einmitt á eftir Sviss sem slökkti í EM vonum stelpnanna okkar í gær.

„Ég er með samning út næstu undankeppni HM sem byrjar bara núna í september,“ sagði Freyr í samtali við Vísi.

Getgátur hafa verið uppi um að Freyr myndi mögulega hætta með liðið eftir EM en talið er að félög í Pepsi-deild karla hafi áhuga á að fá hann til starfa.

Hugur Freys er hjá kvennalandsliðinu eins og samningurinn segir til um.

„Ég er einbeittur á að fara í það verkefni og klára þá leiki sem eru núna í haust, ná í eins mörg stig og við mögulega getum. Ég hugsa ekki um neitt annað en það akkurat núna.“

Ekki missa af neinu tengdu stelpunum okkar á EM 2017 í Hollandi. Íþróttadeild 365 er með öflugt teymi fréttamanna á mótinu og færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af íslenska liðinu. Fylgdu okkur á Facebook og Twitter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×