Innlent

Risa kúrbítur í Eyjafjarðarsveit

Sæunn Gísladóttir skrifar
Kúrbíturinn sem Kristín heldur á mældist 60 sentimetrar að lengd.
Kúrbíturinn sem Kristín heldur á mældist 60 sentimetrar að lengd. Mynd/Aðsend
„Það var þannig að við vorum bara í burtu hér í fimm daga, hann var 10 sentimetrar þegar við fórum og þegar við komum heim rákum við augu í þetta dýrindis stykki,“ segir Kristín Sigurðardóttir kennari. Kúrbítur sem var orðinn 60 sentimetrar á lengd og 3,5 kíló hafði þá vaxið í gróðurhúsi hjónanna í fjarveru þeirra.

„Þeir verða venjulega ekki svona stórir. Venjulega tekurðu þá fyrr en það var enginn til að taka hann og þess vegna stækkaði hann svona,“ segir Kristín sem búsett er í Berg­landi í Eyjafjarðarsveit.

Í gærkvöldi grillaði Kristín kúrbítinn í kvöldmatinn. „Hann var ekki ætur. Innsti hringurinn var alveg trénaður. Það var allt í lagi með úthringinn á honum.“

Það er í raun maður Kristínar, Jón Stefánsson, sem sér um gróðurhúsið og er þetta í fyrsta sinn sem hann ræktar kúrbít. Einnig ræktar hann jarðarber, tómata og gúrkur. Kristín telur að góða veðrið fyrir norðan og skilyrðin undanfarið skýri þennan mikla vöxt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×