Notendur Netflix yfir 100 milljónir

Samkvæmt nýjum tölum frá Netflix eru notendur þjónustunnar núna 104 milljónir. BBC greinir frá því að fyrirtækið reki fjölgun áskrifenda til fjárfestingar í nýjum þáttum og kvikmyndum.
Netflix framleiddi meðal annars þættina 13 Reasons Why, fimmtu seríu af House of Cards og The Crown. Gengi hlutabréfa hækkaði um 10 prósent í viðskiptum eftir lokun markaða eftir að greint var frá niðurstöðu annars ársfjórðungs hjá félaginu.
Áskrifendum fjölgaði um 5,2 milljónir á ársfjórðungnum, flestir voru utan Bandaríkjanna. Um helmingur áskrifenda er utan Bandaríkjanna í dag. Tekjur Netflix jukust um 32 prósent á milli ára og námu 2,8 milljörðum dollara. Stefnt er að því að tekjur verði rúmlega þrír milljarðar dollara á næsta fjórðungi.