Erlent

Alþjóðleg handtökuskipun á hendur keðjusagarmanninum

Kjartan Kjartansson skrifar
Franz Wrousis réðst á fólk á skrifstofu tryggingafélagsins CSS í Schaffhausen.
Franz Wrousis réðst á fólk á skrifstofu tryggingafélagsins CSS í Schaffhausen. Vísir/AFP
Lögreglu hefur enn ekki tekist að hafa hendur í hári mannsins sem særði fimm menn með keðjusög í svissneska bænum Schaffhausen í gær. Talið er að maðurinn sé enn vopnaður söginni og að hann sé hættulegur. Alþjóðleg handtökuskipun hefur gefið út á hendur honum.

Árásarmaðurinn, Franz Wrousis, er 51 árs gamall og býr í skóginum nærri bænum. Hann réðst á fólkið á skrifstofu tryggingafélags í miðbæ Schaffhausen skömmu eftir 10:30 að staðartíma.

Fimm særðust í árásinni. Sá sem særðist verst er nú sagður kominn úr lífshættu, að sögn lögreglu.

Fleiri en hundrað lögreglumenn frá Sviss og Þýskalandi hafa síðan leitað Wrousis en Schaffhausen er nyrst í Sviss, skammt frá þýsku landamærunum. Bíll Wrousis fannst í gær en hann var sjálfur víðsfjarri.

Yfirvöld í Baden-Württemberg í Þýskalandi segja ekkert benda til þess að Wrousis hafi farið yfir landamærin, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Með brotaferil á bakinu

Ekki liggur fyrir hvað manninum gekk til en Ravi Landolt, yfirmaður í lögreglunni, sagði á blaðamannafundi í gær að árásin hafi ekki verið handahófskennd. Hún hafi beinst að fólki hjá tryggingafélaginu.

Wrousis hefur tvisvar verið dæmdur fyrir vopnalagabrot. BBC segir að nágranni mannsins hafi tilkynnt hann til lögreglu í tvígang eftir að Wrousis jós yfir hann fúkyrðum.


Tengdar fréttir

Árásarmaður gengur laus í svissneskum bæ

Fimm eru særðir, þar af tvær alvarlega, eftir að óþekktur maður er sagður hafa gengið berserksgang með keðjusög í svissneska bænum Schaffhausen, nærri landamærunum að Þýskalandi. Lögreglan leitar að árásarmanninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×