Körfubolti

Allir gleymdu körfuboltareglunum á sama tíma | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rússinn Daria Kurilchuk með boltann í leiknum.
Rússinn Daria Kurilchuk með boltann í leiknum. Mynd/FIBA
Einn misskilningur ruglaði hreinlega alla í ríminu í leik í úrslitakeppni HM 19 ára kvenna í körfubolta.

Leikurinn með þessum eina risastóra misskilningi var á milli Rússland og Spánar í riðlakeppninni en rússneska liðið er eitt allra sterkasta liðið í keppninni og vann alla leiki sína í riðlinum.

Það voru hinsvegar Rússarnir sem enduðu á því að hjálpa mótherjum sínum með óvenjulegum hætti í þessum leik.

Rússnesku stelpurnar misstu boltann útaf og allir bjuggust við að spænska liðið fengi innkastið.

Dómarinn afhendi hinsvegar Rússum boltann og það ótrúlega gerðist. Rússneska liðið brunaði í sókn á sína eigin körfu.

Hraðaupphlaupið gekk fullkomlega upp og það endaði með galopnu þriggja stiga skoti sem fór rétta leið. Vandamálið var bara að Rússarnir voru að skora í eigin körfu.

Dómararnir stöðvuðu þá leikinn og upp hófst reikistefna um hvað hafði í raun gerst.

Dómararnir höfðu að því virtist tvo möguleika í stöðunni en völdu hvorugan.

Þeir hefðu getað endurtekið innkastið og látið rétt lið byrja með boltann. Þeir hefðu líka geta dæmt yfir miðju á rússneska liðið en þær fóru með boltann aftur fyrir miðju áður en þær smelltu niður þessum þristi.

Dómararnir ákváðu hinsvegar að dæma sjálfskörfuna gilda og rússnesku stelpurnar byrjuðu aftur með boltann en nú undir eigin körfu.

Spænsku stelpurnar fengu þá aðeins tvö stig þrátt fyrir að skotið hafi verið tekið fyrir utan þriggja stiga línuna. Karfan var skráð á fyrirliðann Luciu Alonso.

Mistökin komu reyndar ekki að sök því Rússland vann leikinn örugglega 77-58.

Það má sjá þetta ótrúlega atvik hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×