Innlent

Lögreglan kölluð tvisvar að Herjólfi vegna ósáttra farþega eftir að fjórar ferðir féllu niður

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá höfninni í Vestmannaeyjum í dag þegar lögreglan var kölluð þar til í annað skiptið á innan við sólarhring.
Frá höfninni í Vestmannaeyjum í dag þegar lögreglan var kölluð þar til í annað skiptið á innan við sólarhring. arnar richardsson
Lögreglan í Vestmannaeyjum var kölluð einu sinni út í gærkvöldi og einu sinni út í dag að höfninni í Eyjum vegna ósáttra farþega sem komust ekki með Herjólfi.

Fjórar ferðir hans féllu niður í gær með tilheyrandi óþægindum fyrir farþega.

Tryggvi Ólafsson, lögreglufulltrúi í Vestmannaeyjum, segir að í gær hafi verið um að ræða erlenda ferðamenn sem voru ósáttir við að komast ekki með ferjunni þar sem ferð féll niður og í morgun var annar ósáttur farþegi, Íslendingur, á ferð vegna þess að hann komst ekki með bílinn um borð.

Aðspurður segir Tryggvi að það sé ekki algengt að lögreglan sé kölluð til að Herjólfi og bætir við að hlutirnir hafi leyst farsællega bæði í gær og í dag.

Erfitt að við aðstæðurnar í Landeyjarhöfn

Gunnlaugur Grettisson, forstöðumaður ferjudeildar Eimskips, segir að fjórar ferðir Herjólfs hafi fallið niður í gær.

Þeir farþegar sem áttu pantað með bátnum í gær lenda á biðlista þar sem þeir farþegar sem eiga pantað með bátnum í dag ganga fyrir.

„Meginástæðan fyrir þessu er vegna þess að dýpið í Landeyjahöfn er takmarkandi, það er að segja dýpið á milli hafnargarðanna er of lítið til þess að hægt sé að sigla þarna þegar ölduhæðin er mikil og ölduhæðin í gær var langt yfir því sem spáð var þannig að þetta ástand sem kom þarna upp var töluvert óvænt,“ segir Gunnlaugur í samtali við Vísi.

Hann segir ekki hægt að sigla ferðirnar inn í nóttað eða byrjað fyrr á morgnana þar sem ekki sé hægt að lengja vinnutíma áhafnarinnar. Fyrirtækið sé ekki með mannskap í aðra áhöfn svo hægt sé að sigla á milli lands og eyja til að mynda á nóttunni.

„Auðvitað væri það hægt ef maður hefði auka mannskap að sigla á næturnar, eða mjög seint á kvöldin og snemma á morgnana, en því miður höfum við það ekki nú svo þetta er erfitt við að eiga. Þetta er auðvitað alveg skelfilega erfitt og alveg hræðilegt ástand fyrir okkar góðu farþega og okkur þykir þetta auðvitað alveg gríðarlega leiðinlegt.

Því miður ráðum við ekki við aðstæður og þegar dýpið er svona eins og í gær og ölduhæðin eins og hún var þá erum við í stökustu vandræðum,“ segir Gunnlaugur og bætir að það sé mjög óvanalegt að dýpið skuli vera takmarkandi á þessum tíma.

Hann gerir ráð fyrir því að búið verði að vinda ofan af biðlistunum á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×