Enski boltinn

Alexis Sanchez tilkynnir sig veikan þegar Wenger vill fá hann á æfingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexis Sanchez fékk lengra frí hjá Arsenal vegna verkefna hans með landsliði Síle í sumar.
Alexis Sanchez fékk lengra frí hjá Arsenal vegna verkefna hans með landsliði Síle í sumar. Vísir/Getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, býst við Sílemanninum Alexis Sanchez á sína fyrstu æfingu á sunnudaginn. Það er hinsvegar óvíst hvort kappinn hafi heilsu til.

24 klukkutímum eftir að Wenger sagðist búast við Sanchez á æfingu á sunnudaginn birti Alexis Sanchez færslu inn á Instagram-reikningi sínum þar sem hann tilkynnir sig veikan.



 
Enfermo sick

A post shared by Alexis Sanchez (@alexis_officia1) on Jul 27, 2017 at 6:33pm PDT





Alexis Sanchez hefur verið á leiðinni frá Arsenal í allt sumar samkvæmt fréttum í enskum miðlum en Wenger vill fá hann á æfingu um helgina.

Sanchez fékk lengra frí en liðsfélagarnir þar sem hann var með Síle í Álfubikarnum í Rússlandi í júnímánuði.

„Fyrsta æfing Alexis og Mustafi verður á sunnudaginn eða á sama degi við mætum Sevilla í Emirates-bikarnum. Þeir eiga að æfa á þeim degi,“ sagði Arsene Wenger.

Alexis Sanchez ákvað hinsvegar að svara á Instagram-síðu sinni eins og sést hér fyrir ofan. Hann birtir þar af sér hálfslöppum með trefil og fýlusvip og undir stendur „veikur“.

Það er margt sem bendir til þess að þetta sé fyrirboði vandræða með Alexis Sanchez þrátt fyrir að Wenger ítreki að hann verði ekki seldur í sumar.

„Hann er dýrmætur liðinu og ég held að hann elski félagið. Ég stend við það sem ég hef sagt áður. Við ætlum ekki að selja hann,“ sagði Wenger.

Hinn 28 ára gamli Alexis Sanchez hefur ýmist verið á leiðinni til Manchester City eða Paris Saint Germain en hvort að hann sé í staðinn á leiðinni í „verkfall“ verður bara að koma í ljós á sunnudaginn.

Það sem er vitað að Arsenal þarf á Alexis Sanchez að halda en hann var sem dæmi með 24 mörk og 11 stoðsendingar í 38 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×