Umfjöllun og viðtöl: FH - Leiknir R. 1-0 | Lennon skaut FH í úrslitaleikinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Steven Lennon
Steven Lennon Vísir/Stefán
FH-ingar eru komnir í úrslitaleik Borgunarbikars karla eftir dramatískan 1-0 sigur á Leikni Reykjavík í Kaplakrika í dag. Steven Lennon skoraði sigurmarkið á þriðju mínútu uppbótatíma þegar allt stefndi í framlengingu.

Leiknir kom inn í leikinn sem minna liðið, sitja í 9. sæti Inkasso deildarinnar og mættu Íslandsmeisturum FH. Það var samt ekki að sjá á liðunum í dag að gæðamunurinn væri eins mikill og menn héldu, Leiknismenn voru inni í leiknum allan tíman og var sárt fyrir þá að tapa leiknum á þennan hátt.

Bæði lið áttu dauðafæri í fyrri hálfleik, Eyjólfur Tómasson varði í tvígang frá Kassim Doumbia og Emil Pálssyni eftir hornspyrnu um miðjan hálfleikinn áður en hann náði á einhvern óútskýranlegan hátt að vera fyrir skoti Atla Viðars Björnssonar á 41. mínútu. Ingvar Ásbjörn Ingvarsson skaut svo í slánna fyrir Leikni á 33. Mínútu, svo það var í raun ótrúlegt að staðan væri markalaus í hálfleik.

Það var minna um dauðafæri í seinni hálfleik, en Leiknismenn komust tvisvar í góðar skyndisóknir sem fóru forgörðum á síðustu snertingunum. FH-ingar áttu líka sín færi og björguðu Leiknismenn á línu á 64. mínútu.

Leikurinn var svo á leið í framlengingu þegar Steven Lennon nær að krafsa sig í gegnum vörn Leiknis á síðustu mínútu uppbótatímans og skjóta Hafnfirðingum í úrslitin.

Í raun má segja að það hafi verið heppni hvoru megin sigurinn lenti í dag. Bæði lið áttu sín færi og þó FH væri meira með boltann þá voru þeir ekki með neina yfirburði hér í dag og voru margir leikmenn FH ekki að spila sinn besta leik.

Allt Leiknisliðið barðist eins og hetjur í Hafnarfirði í dag og er erfitt að velja einhvern einn sem stóð upp úr, en Eyjólfur Tómasson varði oft meistaralega og má segja að það sé honum að þakka að liðið hafi ekki tapað með meiri mun.

FH mun nú mæta ÍBV í úrslitaleik keppninnar, sem fer fram á Laugardalsvelli laugardaginn 12. ágúst.

Heimir Guðjónsson þjálfari FH og Ólafur Páll Snorrason aðstoðarþjálfari.vísir/ernir
Heimir Guðjóns: Smá þreyta í liðinu

„Gríðarlega ánægður með að komast í bikarúrslitaleikinn. Þetta var erfiður leikur og Leiknismenn voru gríðarlega vel skipulagðir, spiluðu sterkan varnarleik og beittu skyndisóknum. Okkur gekk erfiðlega að brjóta þá á bak aftur en Lenny kláraði þetta fyrir okkur, fínt að þurfa ekki að fara í framlengingu,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH eftir leikinn.

Heimir var að vonum mjög ánægður með að þurfa ekki að fara í framlengingu, enda mikið álag verið á hans liði að undanförnu og mikilvægur Evrópuleikur fram undan í næstu viku. „Það var eitthvað sem við vildum ekki (að fara í framlengingu). Þegar staðan er 0-0 þá þarf lítið að gerast, en fínt að klára þetta.“

„Það voru pínu þreytumerki á þessu hjá okkur, það var erfitt ferðalag til baka frá Slóveníu, mér fannst það sitja aðeins í liðinu. En næsti leikur er ekki fyrr en á miðvikudaginn þannig að við ættum að vera búnir að jafna okkur fyrir þann leik.“

FH mætir ÍBV í úrslitum bikarsins og býst Heimir við hörkuviðureign. „Við spiluðum við þá í Eyjum og það var hörku leikur sem við rétt náðum að merja sigur 1-0. Við vitum það að Eyjamenn eru með mjög gott lið og það verður hörku leikur.“

Kristófer Sigurgeirsson
Kristó: FH er „unique“ lið

Þjálfari Leiknis, Kristófer Sigurgeirsson, var sár eftir tap sinna manna. „Maður vill aldrei tapa fótboltaleikjum, svekkjandi að tapa á síðustu sekúdnunum. Heilt yfir samt ánægður með leikinn, við náðum að halda vel aftur af FH-ingum og settum þá ágætlega í vandræði.“

„Auðvitað er maður himinlifandi (með frammistöðuna), FH er svolítið unique lið og er mjög erfitt að eiga við. Við náum að loka á þeirra stærstu pósta og er það mjög jákvætt, en sárt að tapa fótboltaleik.“

Leiknir var án þriggja lykilmanna sem allir sátu úti leikbann í dag. Kristófer vildi ekki fara að velta því fyrir sér hvort þeir hefðu breytt einhverju í leiknum í dag. „Maður getur í raun aldrei sagt neitt um það. Þeir hefðu kannski verið öðruvísi ef þeir hefðu ekki verið í miðri Evrópukeppni svo þetta er svolítið ef og hefði. Maður veit ekkert svarið við því.“

Lennon: Var á síðustu metrunum

„Ég var á síðasta prósentustiginu, ef þetta hefði farið í framlengingu þá hefði ég verið í vandræðum,“ sagði markaskorarinn Steven Lennon eftir leikinn. „Ég reyndi svipuð skot nokkrum sinnum áður en ég negldi þessum bara á markið og hann datt inn svo ég er ánægður með það.“

„Við vorum aðeins þreyttir eftir leikinn gegn Maribor, en við kláruðum þetta og erum á leið í úrslitin. 1-0 eða 5-0 skiptir ekki máli, við unnum leikinn.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira