Fastir pennar

Skólaljóðin

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Einar Kárason skrifar skemmtilega grein um gömlu skólaljóðin í DV þar sem hann rifjar upp þennan gamla barnaskólalærdóm – myndirnar hans Halldórs Péturssonar af skáldunum og skreytingarnar, og utanaðbókarlærdóminn þegar börnin þuldu um „læpuskaps ódyggðir“ úr ljóði Bjarna Thorarensen um Ísland – að ógleymdum línunum:

„Þó vellyst í förmunum völskunum meður / vafri að landi eg skaða ei tel / ef út fyrir kaupstaði íslenskt í veður / ef hún sér hættir þá frýs hún í hel.“ (Vellyst=munúð; völskunum meður=með rottunum.) Þetta kann maður enn?…

Fljúga hvítu fiðrildin

Einar nefnir að þessi bók hafi verið aflögð þegar til valda komst ný kynslóð í menntamálum – fólk sem er svolítið eldra en við Einar og stundum kennt við 68-kynslóð. Því þótti utanaðbókarlærdómurinn til þess fallinn að hamla skilningi á ljóðunum, vera stagl og andstætt eðli skáldskaparnautnar sem væri meira í ætt við hugleiðslu og eintal sálarinnar en að romsa upp úr sér í skólastofum eins við vorum látin gera. Sérstaklega þótti líka ástæða til að endurnýja valið á skáldunum; þarna voru ekki yngri skáld en Steinn Steinarr, sem var látinn vera fulltrúi hins óskiljanlega atómskáldskapar, og konurnar voru svo fáar að það er ekki einu sinni hægt að nota um það orðið „fáar“. Þær voru þrjár. Þetta voru þuluskáldin Theódóra Thoroddsen, Hulda og Ólöf frá Hlöðum, en ekki einu sinni Skáld-Rósa – eitt höfuðskáld 19. aldar – var talin þess verð að hafa með, vegna þess sennilega að hún orti ferskeytlur, sem skólamenn voru þá þegar farnir að líta niður á sem lágbrag, af því að þorri almennings hafði vald á því að yrkja slíkt.

Teikningar Halldórs vitnuðu um bókstaflegan skilning á ljóðunum. Þannig teiknaði hann hvít fiðrildi til að skreyta vísu Sveinbjarnar Egilssonar, Fljúga hvítu fiðrildin, þar sem nærtækara hefði kannski verið að teikna stór snjókorn, um leið og þarna var drengur í röndóttum náttfötum, augljóslega samtímapiltur okkar krakkanna.

Skólaljóðin voru með öðrum orðum barn síns tíma, stórgölluð bók á ýmsan máta og hlaut að vekja sífellt andsvar, jafnvel kalla á uppreisn. En þessi bók hafði einhverja töfra. Við vorum mörg, krakkar á mínum aldri, sem iðulega sátum og blöðuðum í þessari bók, skoðuðum myndirnar, lituðum þær jafnvel eða bættum enn meira skeggi á kallana, brutum heilann um „dóttur langholts og lyngmós“, hlógum að Fjallgöngu Tómasar, táruðumst yfir Hrepps­ómagahnokka eftir Örn Arnarson, sem ég get enn farið með?…

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort ekki hafi verið misráðið að henda henni svona á haugana, og jafnvel hvort þessi kollsteypustefna í menningarmiðlun sem 68-kynslóðin stóð fyrir hafi kannski verið misráðin svona eftir á að hyggja, hvort sú stefna eigi kannski þátt í því menningarrofi sem manni finnst stundum að hér hafi orðið. Þar með er ekki sagt að allt hafi verið slæmt að öllu leyti sem kom í staðinn, öðru nær, og að sjálfsögðu þarft verk að láta börnin lesa meira af nútímaljóðlist en Skólaljóðin buðu upp á.

Koll úr kolli

Eitt var hins vegar gott og jafnvel mikilsvert við þessa bláu bók, eins og ég hef líka heyrt Andra Snæ Magnason tala um: hún hafði að geyma sameiginlegan tilvísunargrunn, ekki bara milli krakka sem áttu ólíkan bakgrunn hér og þar á landinu, heldur líka – sem ekki er síður mikilsvert – milli kynslóðanna. Það var einhver galdur í þessari bók – og ekki síst fólginn í þessu: Krakki situr og les í Skólaljóðunum og foreldrið þekkir bókina, ann henni jafnvel á sinn hátt, á sér minningar um hana, og um leið myndar bókin þráð milli foreldris og barns – jafnvel afa og ömmu og barns og þannig koll af kolli, eða kannski öllu heldur koll úr kolli. Þetta atriði hefur verið forsmáð hér í rótleysinu þar sem alltaf hefur verið talin þörf á að byrja upp á nýtt, aftur og aftur.

Maður ímyndar sér að hægt hefði verið að hafa þessa bók áfram, en þó þannig að hún væri í stöðugri endurskoðun. Þarna væri tiltekinn grunnur – fastaljóð eftir fasta höfunda – en nýjum höfundum bætt inn í með tíð og tíma og hægð, fleiri konum, yngri skáldum – og eldri. Svo hefðu nýir teiknarar bæst við og gert myndir í svipuðum stíl og Halldór, með áherslubreytingum.

Því auðvitað þurfti að endurskoða af varfærni valið á ljóðunum, auka hlut kvenna og alþýðuskálda, sem svo eru nefnd af því að þau ortu undir rímnaháttum – en hitt var einhver meinloka hjá 68-kynslóðinni að utanaðbókarlærdómur á ljóðum væri slæmur. Í rauninni er fátt nema gott um það að segja: þjálfar brageyrað sem ekki mun víst af veita.






×