Erlent

Vilja gera gagnagrunn yfir vinstriöfgamenn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Meðlimir hinnar svokölluðu Svörtu blokkar bjóða lögreglu velkomna til helvítis.
Meðlimir hinnar svokölluðu Svörtu blokkar bjóða lögreglu velkomna til helvítis. Nordicphotos/AFP
Þingmenn Kristilegra demókrata í Þýskalandi vilja að Evrópa komi sér upp sameiginlegum gagnagrunni til að fylgjast með vinstrisinnuðum öfgamönnum. Frá þessu greindi BBC í gær.

Kveikjan að hugmyndinni eru aðgerðir hundraða manna hóps sem gekk berserksgang á götum Hamborgar og mótmælti fundi leiðtoga G20 ríkjanna um helgina. Líkti Martin Schulz, kanslaraefni þýska Jafnaðarmannaflokksins, hópnum við hryðjuverkamenn í gær. Hópurinn sem um ræðir samanstóð af meðlimum hóps sem kallar sig Svörtu blokkina og spratt upp á níunda áratugnum.

Um 20.000 lögregluþjónar stóðu vörð um fundinn en nokkur hundruð meðlima Svörtu blokkarinnar kveiktu í bílum, rændu verslanir og köstuðu eldsprengjum og steinum. Langstærstur hluti mótmælenda, tugir þúsunda, mótmæltu þó friðsamlega.

Schulz sagði í samtali við Reut­ers-­fréttastofuna að aðgerðum óeirðaseggjanna svipaði til aðgerða hryðjuverkamanna. „Þetta fólk tók heila borg í gíslingu í heimsku sinni, líkt og um hryðjuverkamenn væri að ræða.“

Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, tjáði sig einnig um óeirðirnar í gær. „Sú eyðilegging á munum lögreglu og almennra borgara sem mótmælendur stóðu að hryggir mig mjög,“ sagði forsetinn.

Að sögn lögreglunnar í Hamborg særðust 476 lögregluþjónar í átökum. Alls voru 186 handteknir.

Þingmenn Kristilegra demókrata hafa jafnframt kallað eftir því að Olaf Scholz, borgarstjóri Hamborgar, segi af sér vegna óeirðanna. „Það mun ég ekki gera,“ sagði Scholz við fjölmiðla á sunnudagskvöld og bætti því við að hann hefði einungis haft yfir 20.000 lögregluþjónum að ráða. Ekki hefði verið hægt að fá fleiri lögregluþjóna á svæðið.

BBC greinir frá því að þeir sem skráðir yrðu í hinn sameiginlega gagnagrunn muni ekki fá að ferðast á milli landa þegar atburðir á borð við G20-fundinn standa yfir.

Einn talsmaður hugmyndarinnar, Heiko Maas dómsmálaráðherra, sagði í samtali við Bild í gær að óeirðirnar sýndu nauðsyn slíks gagnagrunns. „Stór hluti þeirra sem tóku þátt í ofbeldinu voru óþekktir einstaklingar sem komu frá útlöndum. Slíkur gagnagrunnur myndi auðvelda ríkjum að koma í veg fyrir komu slíks fólks til landsins.“

Ansgar Heveling, þingmaður Kristilegra demókrata, sagði í viðtali við Mitteldeutschen Zeitung, að hann myndi vilja sjá aukin útgjöld til lögreglu í ljósi óeirðanna, einkum á svokölluðum sjálfsstjórnarsvæðum á borð við Rote Flora í Hamborg og Rigaer Straße í Berlín. 

Hvað er þessi Svarta blokk?

Svarta blokkin er nafn sem hreyfing vinstriöfgamanna í Þýskalandi hefur fengið. Meðlimir hópsins eru venjulega dökkklæddir með grímur.

Í úttekt Deutsche Welle segir að markmið blokkarinnar sé að afnema kapítalisma og koma á stjórnkerfi án peninga.

Varð hreyfingin þekkt á níunda áratugnum eftir óeirðir í Vestur-Þýskalandi þar sem kjarnorkuverum og útburði hústökufólks var harðlega mótmælt.

Eru mótmælin í Hamborg ekki þau fyrstu þar sem fjöldi lögregluþjóna særðist. Slíkt gerðist líka í Rostock árið 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×