Enski boltinn

Wayne Rooney: Ég er ekki kominn á elliheimilið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney með Everton-treyjuna.
Wayne Rooney með Everton-treyjuna. Vísir/Getty
Wayne Rooney hefur yfirgefið Manchester United og snúið til baka til uppeldisfélagsins síns Everton en nú velta margir því fyrir sér hvort að kappinn eigi eitthvað eftir á tanknum.

Rooney sjálfur ætlar sér stóra hluti með Everton og hefur bæði talað um drauma að vinna titla með félaginu sem og að vinna sér aftur sæti í enska landsliðinu.

Rooney missti sæti sitt í enska landsliðinu eftir að Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, setti hann út í kuldann á síðasta tímabili.

Rooney er mikill Everton-maður og það er vissulega falleg sjón að sjá hann snúa aftir til síns æskufélags þegar hann gat öruggleg komist í meiri peninga annarsstaðar.

Hann er þó bara 31 árs gamall og fullvissar stuðningsmenn Everton og aðra að hann sé ekki kominn til Everton til að deyja.

„Ég er ekki kominn á elliheimilið. Vonandi stend ég mig það vel með Everton að það sé ekki hægt að líta framhjá mér þegar enska landsliðið verður valið,“ sagði Wayne Rooney á blaðamannafundi í gær.

„Ég hef alltaf spilað eins og ég hafi eitthvað að sanna. Ég er tilbúinn í að spila og að vinna. Ég er mjög spenntur og tilbúinn í þessa áskorun. Þetta var rétti tíminn fyrir mig til að koma hingað og ég er klár í slaginn,“ sagði Rooney.

„Það er allt í lagi að gefa það út að við ætlum að vinna titla og auðvitað vil ég það. Það er hinsvegar undir öllu félaginu komið að ná þeim markmiðum,“ sagði Rooney en Everton hefur ekki unnið titil síðan að liðið varð enskur bikarmeistari vorið 1995.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×