Enski boltinn

Arsene Wenger veit ekki betur en Alexis Sanchez verði áfram hjá Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger og Alexis Sanchez.
Arsene Wenger og Alexis Sanchez. Vísir/Getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, býst ekki við öðru en að Sílemaðurinn Alexis Sanchez spili áfram með Arsenal-liðinu á komandi tímabili.

Alexis Sanchez hefur að minnsta kosti ekki sagt neitt um það við knattspyrnustjórann sinn að hann vilji yfirgefa Arsenal þrátt fyrir að enskir fjölmiðlar hafa skrifað mikið um það á síðustu mánuðum að Sanchez sé á förum. BBC segir frá.

Það hefur meira segja verið skrifað um mikinn áhuga Alexis Sanchez á því að fara til Manchester City og spila á nýjan leik fyrir Pep Guardiola. Sanchez kom til Arsenal frá Barcelona árið 2014.

Hinn 28 ára gamli Sanchez á bara eitt ár eftir af samningi sínum og hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning. Wenger býst við því hann klári samninginn. Þegar hann var spurður um það hvort Alexis Sanchez hafi sagt honum að hann vilji fara frá Arsenal var svar Wenger stutt og skorinort: „Nei,“ svaraði Wenger en bætti svo við.

„Leikmenn hafa samninga við félagið og við reiknum með því að þeir virði sína samninga. Það er það sem við viljum,“ sagði Wenger.

Arsene Wenger og leikmenn hans eru staddir í Sydney í Ástralíu þar sem Arsenal spilar tvo æfingaleiki í þessari viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×