Enski boltinn

Áhorfandi skotinn til bana á leik þar sem Coutinho var heiðursgestur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Philippe Coutinho er mættur aftur til æfinga hjá Liverpool.
Philippe Coutinho er mættur aftur til æfinga hjá Liverpool. Vísir/Getty
Brasilíska knattspyrnufélagið Vasco da Gama þarf að spila heimaleiki sína fyrir luktum dyrum á næstunni eftir að áhorfandi var skotinn til bana á leik liðsins um helgina.

Vasco da Gama tapaði 1-0 á móti nágrönnum sínum í Flamengo í Ríó-slag um helgina en allt varð vitlaust á milli stuðningsmanna félaganna í leikslok. Leikmenn Flamengo þurftu að fá lögreglufylgd af vellinum.

Philippe Coutinho, stjörnuleikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Liverpool og fyrrum leikmaður Vasco da Gama, var á þessum leik á sunnudaginn. Stuðningsmenn Vasco da Gama hylltu hann fyrir leikinn en Coutinho var heiðursgestur síns gamla félags.

21 þúsund manns voru á leiknum en eftir að Flamengo-liðið hafði tryggt sér sinn fyrsta sigur á vellinum í 44 ár þá brutust út mikil átök með skelfilegum afleiðingum. BBC segir frá.

Hinn 27 ára gamli Davi Rocha Lopes lést af skotsárum sem hann hlaut í ástökunum eftir leikinn. Þrír aðrir voru fluttir á spítala með skotsár.

Eurico Miranda, forseti Vasco da Gama, baðst afsökunar fyrir hönd félagsins. Hann sagði að þetta hafi verið verk glæpamanna og skemmdavarga en ekki sannra stuðningsmanna Vasco.

Einn af leikmönnum Flamengo sem flúðu af velli í leikslok var hinn sextán ára gamli Vinicius Junior sem Real Madrid keypti á 38 milljónir punda frá Flamengo fyrr í sumar en lánaði svo aftur til brasilíska félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×