Erlent

Hönd í hönd á sólarströnd: Strandgestir björguðu fjölskyldu

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Á ströndinni við Panama-borg í Flórída kom fjöldi fólks fjölskyldu til bjargar.
Á ströndinni við Panama-borg í Flórída kom fjöldi fólks fjölskyldu til bjargar. Vísir/Getty
Gestir á ströndinni við Panama-borg í Flórída tóku höndum saman og björguðu fjölskyldu frá drukknun með því að mynda „mennska keðju.“ Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Jessica Mae Simmons greindi frá örlagararíkri strandferð með manninum sínum á Facebook síðunni sinni. Þau höfðu í hyggju að slaka á og ætluðu þau sér að borða í rólegheitum á ströndinni. Fljótlega varð þeim ljóst að ekki var allt með felldu. Heil fjölskylda hafði lent í útsogi en útsogsstraumurinn togaði fjölskylduna langt út í sjó og var fólkið hætt komið þegar strandgestirnir náðu til þeirra.

Simmons, kærasti hennar og vinir höfðu hvatt fólk til þess að taka sér stöðu hlið við hlið til þess að mynda mennska keðju til þess að bjarga fjölskyldunni frá drukknun.

Simmsons segir þetta hafa verið ótrúlega upplifun og talar um sigur mannsandans. Á ströndinni hafi fólk af ýmsum kynþáttum og kynjum komið saman og hætt lífi sínu fyrir ókunnuga.

Fólkið gekk beint í ægiháar öldurnar og kom fólkinu, sem var búið að gefa alla von upp á bátinn, til bjargar.

Frú Ursey, móðirinn sem lenti í útsoginu, segist ævinlega þakklát bjargvættunum því án þeirra væri hún og fjölskylda hennar ekki á lífi.

Samvinna og manngæska urðu fjölskyldunni til lífs.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×