Erlent

Stjórnvöld á Haítí stofna nýjan her

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Stjórnvöld á Haiti bregðast við fréttum Sameinuðu þjóðanna með því að byggja upp her.
Stjórnvöld á Haiti bregðast við fréttum Sameinuðu þjóðanna með því að byggja upp her. Vísir/getty
Í tilkynningu frá Varnarmálaráðuneyti Haítí kemur fram að stjórnvöld ætli sér að stofna nýjan her að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins BBC. Landið hefur verið herlaust í tuttugu ár.

Ríkisstjórnin stendur fyrir herferð sem miðar að því að laða að konur og karla í nýjan her. Lagt er upp með að herinn verði skipaður fimm hundruð mönnum. Tilgangurinn með nýstofnuðum her er að gæta landamæra og aðstoða eyjarskeggja við tjón af völdum náttúruhamfara.

Tilkynningin um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar kemur í beinu framhaldi af því að Sameinuðu þjóðirnar gáfu það út að þær hygðust yfirgefa eyjuna í október næstkomandi.

Gagnrýnendur ríkisstjórnarinnar óttast að herinn verði notaður sem vopn í höndum ráðandi afla.Vísir/getty
Óttast að hervaldið verði notað í pólitískum tilgangi

Ekki eru allir fylgjandi nýjum her og telja margir að þessar fyrirætlanir séu glapræði í ljósi afleitrar efnahagsstöðu landsins. Gagnrýnendur telja að ráðlegra sé að efla þá löggæslu sem fyrir er í landinu.

Andstæðingar ríkisstjórnarinnar telja þetta skref afar varhugavert. Hervaldið yrði notað sem vopn í höndum ráðandi afla. 

Haítí hefur verið herlaust í tuttugu ár en einræðislegir fyrrum forsetar notuðu herinn til þess að brjóta á bak aftur pólitíska andstöðu.

Í tilkynningu frá Varnarmálaráðuneytinu segir að starfið sé opið konum jafnt sem körlum á aldrinum 18-25 ára sem hafa lokið stúdentsprófi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×