Enski boltinn

Manchester United martröðin er á enda hjá Januzaj

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adnan Januzaj.
Adnan Januzaj. Vísir/Getty
Adnan Januzaj er endanlega laus úr Old Trafford prísundinni en Manchester United seldi hann til spænska félagsins Real Sociedad.

Fyrir fjórum árum fékk kappinn nýjan fimm ára samning og fékk að taka við ellefunni af Ryan Giggs. Margir sáu hann sem framtíðarmann hjá United-liðinu en annað hefur komið á daginn.

Real Sociedad borgar 9,8 milljónir punda fyrir Belgann sem hefur verið mikið í láni á síðustu tímabilum. Hann fer í læknisskoðun í dag. Januzaj er enn bara 22 ára gamall og hefur því nægan tíma til að koma ferli sínum aftur á skrið.

Januzaj var í láni hjá Sunderland í vetur og var lánaður til Borussia Dortmund tímabilið á undan. Frammistaða Januzaj með Sunderland var ekki upp á marga fiska en hann náði ekki að skora eitt einasta mark í 25 deildarleikjum.

Jose Mourinho sagði Januzaj að hann mætti finna sér nýtt félag og Belginn fékk ekki að fara í æfingaferðina til Bandaríkjanna.

Januzaj kom til Manchester United aðeins sextán ára gamall og vann sér sæti í liðinu í stjóratíð David Moyes. Hann skoraði alls 5 mörk í 63 leikjum fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×