Enski boltinn

Dani Alves valdi PSG og kemur því ekki í Laugardalinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dani Alves fagnar ítalska meistaratitlinum með Juventus. Hann hefur orðið sjö sinnum meistari á síðustu níu árum.
Dani Alves fagnar ítalska meistaratitlinum með Juventus. Hann hefur orðið sjö sinnum meistari á síðustu níu árum. Vísir/Getty
Brasilíski bakvörðurinn Dani Alves mun ekki spila í ensku úrvalsdeildinni á komandi tímabili eins og stefndi í fyrr í sumar.

Dani Alves valdi frekar að semja við franska félagið Paris St-Germain og mun því ekki spila aftur fyrir Pep Guardiola en þeir unnu saman í mörg ár hjá Barcelona.

Manchester City bauð Dani Alves tveggja ára samning en var ekki tilbúið að borga honum 230 þúsund pund í vikulaun eins og Parísarliðið. Frakkarnir tvöfölduðu launatilboð City og stálu honum af enska liðinu. BBC segir frá.

Íslendingar fá því ekki að sjá Dani Alves í Laugardalnum föstudaginn 2. ágúst næstkomandi þegar Manchester City og West Ham mætast á Laugardalsvelli í síðasta æfingaleik sínum fyrir tímabilið.

Manchester City er því enn á höttunum eftir hægri bakverði en bæði Pablo Zabaleta og Bacary Sagna yfirgáfu félagið í sumar. Eftir að Dani Alves gaf afsvar þá er Tottenham-maðurinn Kyle Walker efstur á óskalistanum hjá Manchester City.

Dani Alves lék með Juventus á síðustu leiktíð en var laus allra mála og gat því samið við hvaða lið sem er.  Hann vann tvo titla með Juve í vor og er orðinn einn sigursælasti leikmaður allra tíma.

Dani Alves varð meðal annars sex sinnum spænskur meistari á átta tímabilum með Barcelona og hann vann Meistaradeildina líka þrisvar sinnum með Börsungum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×